28 Október 2024 17:40
Í síðustu viku slösuðust ellefu vegfarendur í sjö umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 20. – 26. október, en alls var tilkynnt um 30 umferðaróhöpp í umdæminu.
Mánudaginn 21. október kl. 15.37 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut í Reykjavík og á tvo vegfarendur, sem voru á leið yfir gangbraut á móts við Hamrahlíð. Ökumaðurinn var handtekinn og færður á lögreglustöð í þágu málsins, en vitni sögðu hann hafa ekið gegn rauðu ljósi. Báðir vegfarendurnir voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 22. október. Kl. 8.28 var bifreið ekið austur Hlíðarhjalla í Kópavogi, við Hjallakirkju, og á gangandi vegfaranda. Framrúða bifreiðarinnar var héluð og illa skafin og útsýni ökumannsins eftir því. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.58 var bifreið ekið vestur Bústaðaveg í Reykjavík og aftan á aðra bifreið, sem var kyrrstæð á gatnamótum við Ósland. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 23. október kl. 17.18 varð árekstur á gatnamótum Stakkahrauns og Dalshrauns í Hafnarfirði, en þar er biðskylda fyrir umferð um Dalshraun. Í aðdragandanum var bifreið ekið austur Stakkahraun þegar annarri bifreið var ekið norður Dalshraun svo árekstur varð með þeim, en við það kastaðist önnur bifreiðin á þriðju bifreiðina sem var mannalaus í bifreiðstæði við gatnamótin. Ökumaður og þrír farþegar úr annarri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 24. október. Kl. 12.28 var ekið á vegfaranda á athafnasvæði Olís við Hafnarfjarðarveg í Garðabæ. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.19 var bifreið ekið á tvær aðrar bifreiðar á bifreiðastæði við Háaleitisbraut í Reykjavík og síðan á húsvegg. Í aðdragandanum var ökumaðurinn að bakka út úr stæði þegar hann missti stjórn á bíl sínum með fyrrgreindum afleiðingum. Hann var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 26. október kl. 13.18 var bifreið ekið norður Hamraberg í Hafnarfirði, að Reykjanesbraut, og aftan á aðra bifreið sem beið þess að komast inn á Reykjanesbraut. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.