18 Október 2024 23:11

Suðurhlíð, ný miðstöð fyrir þolendur ofbeldis á Suðunesjum opnaði formlega í gær. Miðstöðin er til húsa að Aðalgötu 60 í Reykjanesbæ og deilir þar húsnæði með Heilsugæslunni Höfða og annarri heilsutengdri starfsemi.  Teymisstjóri Suðurhlíðar er Inga Dóra Jónsdóttir félagsráðgjafi. Þeir sem vilja kynna sér þjónustuna frekar eða bóka viðtal við teymisstjóra geta fengið allar upplýsingar á vefsíðunni www.sudurhlid.is. Endilega kynnum okkur starfið og tölum um það út á við svo allir sem á þurfi að halda viti af þessari þjónustu.

Suðurhlíð er fjórða miðstöðin fyrir þolendur ofbeldis hér á landi. Fyrir eru starfandi Bjarkarhlíð í Reykjavík, Bjarmahlíð á Akureyri og Sigurhæðir á Suðurlandi. Allar miðstöðvarnar vinna starfa út frá hugmyndafræði „Family Justice Center“ sem leggur áherslu á að veita fullorðnum þolendum ofbeldis þverfaglega þjónustu á einum stað, þeim að kostnaðarlausu og með þeirra þarfir í fyrirrúmi.

Opnunarhátíð Suðurhlíðar var haldin fimmtudaginn 17. október en fjöldi manns mætti til að fagna opnuninni.

Stjórn Suðurhlíðar samanstendur af fulltrúum sveitarfélaganna á Suðurnesjum, Lögreglustjórans á Suðurnesjum, Mannréttindaskrifstofu Íslands og Kvennaráðgjafarinnar.

Verkefnið er afurð verkefnisins Öruggari Suðurnes sem varð formlega til í nóvember 2023 þegar eftirtaldir aðilar undirrituðu samstarfsyfirlýsingu um  svæðisbundið samráð um aðgerðir gegn ofbeldi og öðrum afbrotum á svæðinu; Grindavíkurbær, Reykjanesbær, Suðurnesjabær, Sveitarfélagið Vogar, Fjölbrautaskóli Suðurnesja (FS), HSS, Heilsugæslan Höfða, Keilir, Lögreglustjórinn á Suðurnesjum,  Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum, og sýslumaðurinn á Suðurnesjum.