18 Október 2024 13:05

Stofnað hefur verið til Öruggara Norðurlands eystra – svæðisbundins samráðs um varnir gegn ofbeldi og öðrum afbrotum á Norðurlandi eystra. Samstarfsyfirlýsing þess efnis hefur verið undirrituð rafrænt og var fyrsti formlegi samráðsfundurinn haldinn á Húsavík miðvikudaginn 16. október. Að verkefninu standa lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra, Akureyrarbær, Dalvíkurbyggð, Eyjafjarðarsveit, Fjallabyggð, Grýtubakkahreppur, Hörgársveit, Langanesbyggð, Norðurþing, Svalbarðsstrandarhreppur, Tjörneshreppur, Þingeyjarsveit, Heilbrigðisstofnun Norðurlands, Sjúkrahúsið á Akureyri, Háskólinn á Akureyri, Framhaldsskólinn á Húsavík, Framhaldsskólinn á Laugum, Menntaskólinn á Akureyri, Menntaskólinn á Tröllaskaga, Verkmenntaskólinn á Akureyri og Bjarmahlíð.

Markmiðið er að vinna saman að forvörnum á Norðurlandi eystra með sameiginlegum áherslum út frá aðstæðum á svæðinu. Efla skal samvinnu við úrlausn mála m.a. samkvæmt farsældarlögum og að vinna tölfræði sem miðuð er við sameiginlegar skilgreiningar samstarfsaðila. Samráðsvettvangur Öruggara Norðurlands eystra mun funda árlega og framkvæmdateymi starfa þess á milli. Lögreglustjórinn á Norðurlandi eystra boðar samráðsfundi samstarfsaðila og leiðir framkvæmdateymið.

„Það er gleðilegt hversu mikið þverfaglegt samstarf er í umdæminu og hversu mikinn áhuga samstarfsaðilar hafa á því að efla það enn frekar. Viðfangsefnið eru forvarnir í víðu samhengi og því ekki aðeins afbrotaforvarnir. Það eru því fjölmörg verkefni tengd öllum aldurshópum og ólíkum aðilum sem eiga erindi inn í þetta verkefni. Við hlökkum til samstarfsins.“ sagði Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra.

Sjá nánar um samfélagslöggæslu og svæðisbundið samráð um afbrotavarnir

Nánari upplýsingar veitir: Alla Rún Rúnarsdóttir, saksóknarfulltrúi hjá embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra, arr01@logreglan.is