17 Október 2024 15:38

Ríkislögreglustjóri í samráði við lögreglustjórann á Suðurnesjum ákvað þann 6. september 2024 að færa almannavarnastig af hættustigi á óvissustig þar sem eldgosinu norðan við Stóra – Skógfell er lokið.     Gosið sem hófst að kvöldi fimmtudagsins 22. ágúst 2024 er stærsta eldgosið frá því í desember 2023.   Það stóð yfir í um 14 daga.  Óbreytt hættumat Veðurstofu gildir að öllu óbreyttu til 29. október 2024, sjá viðhengi.  Viðbúið er að sama atburðarás endurtaki sig á svæðinu.  Haldi kvikusöfnun áfram á svipuðum hraða má gera ráð fyrir því að innan 4-5 vikna verði rúmmál kviku orðið það mikið að líkur fara að aukast á nýju kvikuhlaupi og mögulegu eldgosi.  Fyrirvari vegna yfirvofandi eldgoss getur verið mjög skammur, allt niður í 30 mínútur.  Jarðskjálftavirkni í kringum Sundhnúksgígaröðina er áfram mjög lítil.   Þá er ekkert í gögnum Veðurstofu sem bendir til þess að kvikusöfnun undir Svartsengi sé að hætta.

Stefnt er að opnun Grindavíkurbæjar mánudaginn 21.október 2024, kl. 06:00 að öllu óbreyttu.  Er það ákvörðun framkvæmdanefndar vegna jarðhræringa í Grindavík sem tilkynnt hefur verið fjölmiðlum.  Vakin er athygli á því að á óvissustigi almannavarna virkjast ekki valdheimildir lögreglustjóra samkvæmt almannavarnalögum.  Framkvæmdanefndin hefur verið í góðu samstarfi við almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og lögreglustjórann á Suðurnesjum.  Áhættumat fyrir þéttbýli í Grindavíkurbæ ber nefndinni að gera í samvinnu við ríkislögreglustjóra.  Á grundvelli  þess áhættumats verður almennri umferð hleypt inn í Grindavík.   Gert er ráð fyrir því að nefndin sendi frá sér fréttatilkynningu um framangreint og þær hættur sem ber að varast innan sveitarfélagsins þegar nær dregur opnun.

Opin svæði í nágrenni bæjarins eru viðsjárverð og hafa ekki verið skoðuð sérstaklega.  Lögreglustjóri mælir alls ekki með því að fólk gangi á fjallið Þorbjörn, Hagafell eða önnur nærliggjandi fjöll.  Opnar sprungur liggja við Nesveg og á Hópsnesi.  Ferðamenn eru á eigin ábyrgð í náttúru Íslands.  Þá eru svæði norðan bæjarmarkanna varasöm.  Íbúar, starfsmenn og aðrir sem dvelja  inn á hættusvæði gera það á eigin ábyrgð.   Hver og einn verður að bera ábyrgð á eigin athöfnum eða athafnaleysi.   Lögreglustjóri tekur fram að Grindavík er ekki ákjósanlegur staður fyrir barnafólk eða börn að leik.   Þar er ekkert skóla- og íþróttastarf.

Athygli ferðamanna er vakin á viðvörunarskiltum við helstu útsýnisstaði þar sem svæðinu er lýst sem hættulegu.  Á svæði sunnan Voga og Reykjanesbrautar hefur verið leitað að sprengjum í gegnum tíðina.  Það svæði er talið mengað af virkum sem óvirkum sprengjum sem geta valdið manntjóni ef þær springa en hiti eða hreyfingar geta haft þar áhrif.  Staðsetning innan 300 metra frá miðpunkti stórrar sprengju getur valdið  manntjóni.   Á svæðinu eru fallbyssukúlur, sprengjuvörpur (Mortar) og æfingasprengjur.   Hér að neðan má sjá sprengjur sem fundist hafa á svæðinu.  Það er hins vegar aðeins fyrir  sprengjusérfræðinga að meta ástand og gerð þessara sprengna.  Þá liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um útbreiðslu né stærð þessa svæðis en Landhelgisgæsla Íslands hefur dregið upp neðangreint kort til upplýsingar.   Inn á þessu svæði þurfa viðbragðsaðilar sem aðrir að halda sig við merkta gönguslóða.   Vakin er athygli á þessari hættu með skiltum sem staðið hafa við upphaf gönguleiða í áratugi.  Það þekkja heimamenn og útivistarmenn sem gengið hafa um svæðið.   Nauðsynlegt er að vekja athygli á þessum staðreyndum.  Það eru tilmæli lögreglustjóra til ferðaþjónustuaðila og þeirra sem veita erlendum ferðamönnum upplýsingar að koma þessum upplýsingum á framfæri við ferðamenn.   Ferðamenn haldi sig við merktar gönguleiðir og slóða.  Gosstöðvarnar eru ekki aðgengilegar fyrir ferðamenn við núverandi aðstæður.   Skipulögð bílastæði eru ekki fyrir hendi né útsýnisaðstaða.   Ökumenn leggi ekki bílum á og við Reykjanesbraut/Grindavíkurveg.

Opið er í Bláa lónið og Northern Light Inn.    Á starfssvæði Bláa Lónsins er nú þéttriðið net gasmæla.  Þá er veðurstöð staðsett á einni bygginu Bláa Lónsins.  Eftirlit og viðbagð við hugsanlegri gasmengun er nú með allt öðrum hætti en áður hefur verið á starfssvæði Bláa Lónsins.   Fulltrúar fyrirtækjanna sitja fundi aðgerðastjórnar og vettvangsstjórnar.    Fylgjast þarf með opnunartímum á heimasíðum fyrirtækjanna.  Þar getur þurft að rýma með skömmum fyrirvara en fyrirtækin starfa inn á skilgreindu hættusvæði Veðurstofu Íslands.   Hættur á svæðinu eru taldar litlar eða mjög litlar við núverandi aðstæður.

Á óvissustigi almannavarna virkjast ekki valdheimildir lögreglustjóra samkvæmt 23. gr. almannavarnalaga.    Framkvæmdanefnd vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ fer með stjórn, skipulag og framkvæmd verkefna sem hér segir:

  1. Starfrækslu þjónustuteyma sem samþætta þjónustu fyrir íbúa Grindavíkurbæjar, m.a. þegar kemur að skóla- og frístundastarfi, félagsþjónustu, barnaverndarþjónustu, þjónustu við eldra fólk, fatlað fólk og aðra viðkvæma hópa og stuðningi á sviði húsnæðis- og vinnumarkaðsmála. Verkefni þjónustuteyma eru m.a. að vinna tillögur og áætlanir um stuðning við íbúana og eiga samráð við móttökusveitarfélög, stjórnvöld og aðra aðila um þjónustu við þá.
  2. Töku ákvarðana um rekstur þjónustumiðstöðvar fyrir íbúa Grindavíkurbæjar og starfrækslu hennar eftir atvikum.
  3. Gerð áhættumats fyrir þéttbýli í Grindavíkurbæ í samvinnu við ríkislögreglustjóra.
  4. Yfirumsjón með framkvæmd nauðsynlegra viðgerða til að tryggja virkni, rekstur og afhendingaröryggi innviða, eftir því sem við á og fellur undir ábyrgðarsvið Grindavíkurbæjar.
  5. Könnun á jarðvegi.
  6. Yfirumsjón með framkvæmd nauðsynlegra viðgerða á götum, stígum og opnum svæðum sem Grindavíkurbær er ábyrgur fyrir.
  7. Yfirumsjón með vernd lausafjármuna í Grindavíkurbæ eftir því sem við á, að mati framkvæmdanefndarinnar.
  8. Framkvæmd aðgangsstýringar í Grindavíkurbæ í samvinnu við lögreglu.
  9. Upplýsingamiðlun til íbúa Grindavíkurbæjar og hagaðila um stöðu mála og framgang verkefna sem nefndin sinnir.

 

Enn eru hættur á svæðinu og aðstæður innan og utan hættusvæða geta breyst með litlum fyrirvara.  Þá geta hættur leynst utan merktra svæða.

Lokunarpóstar við Grindavíkurveg, Bláalónsveg, Nesveg og Suðurstrandarveg verða gerðir óvirkir.   Flóttaleiðir frá Grindavík eru um Suðurstrandarveg, Nesveg, Bláalónsveg og Grindavíkurveg.  Flóttaleiðir frá Bláa Lóninu eru um Bláalónsveg og  Grindavíkurveg.  Arfadalsvíkurvegur er lokaður einbreiður malarvegur sem getur nýst ef til rýmingar kemur.

Til að vekja athygli fólks á aðsteðjandi hættum hafa verið settar upp þrjár viðvörunarflautur í Grindavík.  Þá er ein slík við Bláa lónið og önnur við HS orku í Svartsengi.  Þær hafa verið notaðar með góðum árangri.

Fáir Grindvíkingar kjósa að dvelja í bænum næturlangt.    Lögreglustjóri getur ekki ábyrgst öryggi þeirra við núverandi aðstæður.

Viðbragðsaðilar eru við störf í Grindavík og lögregla og slökkvilið sinna lögbundnu eftirliti í bænum eins og verið hefur.  Þá er sjúkrabíll staðsettur í Grindavík alla daga á dagtíma.

Gagnlegar upplýsingar eru á heimasíðu Grindavíkurbæjar á slóðinni https://grindavik.is/   þá er bent á heimasíðu Veðurstofu Íslands á slóðinni www.vedur.is og heimasíðu almannavarna á slóðinni  www.almannavarnir.is

Fréttatilkynning þessi verður uppfærð þriðjudaginn 29. október 2024, eða fyrr eftir atvikum.  Vísa að öðru leyti til efni fréttatilkynningar lögreglustjóra, dags. 4. október 2024 og sem birt var á www.logreglan.is