Frá vettvangi við Hringbraut í Reykjavík.
4 Október 2024 13:08

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 22. – 28.  september, en alls var tilkynnt um 31 umferðaróhapp í umdæminu.

Sunnudaginn 22. september kl. 13.47 var bifhjóli ekið suður Breiðholtsbraut í Reykjavík, að gatnamótum við Selásbraut/Þingtorg, og aftan á bifreið, sem hafði dregið úr hraðanum vegna umferðar fram undan. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 23. september kl. 19.04 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Krókháls og Hálsabrautar í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður Hálsabraut, en hinn vestur Krókháls og ætlaði ökumaður hennar síðan að beygja til vinstri og aka suður Hálsabraut þegar árekstur varð með þeim. Stöðvunarskylda er gagnvart umferð um Hálsabraut. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 24. september kl. 9.48 rákust saman tvö reiðhjól á göngu- og  hjólastíg við Hringbraut í Reykjavík, við Njarðargötu, en þeim var hjólað í sömu átt. Í aðdragandanum ætlaði aftari reiðhjólamaðurinn að fara fram úr hinum, sem í sömu andrá beygði þá í veg fyrir hinn svo árekstur varð. Aftari reiðhjólamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 25. september. Kl. 7.28 féll ökumaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg á mótum Urriðaholtsstrætis og Holtsvegar í Garðabæ. Þarna er gangstéttarkanturinn frekar hár báðum megin við lækkun í gönguleiðinni. Ökumaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.10 var bifreið ekið norður Vesturlandsveg á Kjalarnesi, á móts við Vík, og aftan á kyrrstæða, mannlausa bifreið sem var lagt á vegöxlinni. Mannlausa bifreiðin kastaðist áfram á ljósastaur, en hin hafnaði utan vegar og valt þar nokkrar veltur. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 27. september. Kl. 11.43 var vörubifreið ekið norður Hafnarfjarðarveg í Kópavogi, við Skeljabrekku, og utan í fólksbifreið á beygjuakrein, sem liggur að Dalbrekku. Bílstjóri vörubifreiðarinnar mun einnig hafa ætlað þessa leið inn í Kópavog, en ekki tekið eftir fólksbifreiðinni og því fór sem fór. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 13.10 féll ökumaður af rafmagnshlaupahjóli á göngustíg í Skútuvogi í Reykjavík, við Blómaval, þegar hann ók yfir lausamöl og missti jafnvægið. Ökumaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Kl. 14.55 var bifreið ekið austur Hringbraut í Reykjavík, við aðrein að Bústaðavegi, og á gátskjöld og síðan ljósastaur. Ökumaðurinn, sem var á stolnum bíl og er grunaður um fíkniefnaakstur, var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.12 var bifreið ekið norður Lónsbraut í Hafnarfirði, að gatnamótum við Óseyrarbraut, þar sem ökumaðurinn missti stjórn á henni, en við það hafnaði bifreiðin á girðingu og ljósastaur á Óseyrarbraut. Ökumaðurinn, sem er talinn hafa fengið aðsvif í aðdraganda slyssins, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.