9 September 2024 14:43

Að gefnu tilefni.

Það er ekki öruggt að hleypa fólki inn í íþróttahúsið Hópið miðað við ástand hússins í dag.  Það verður ekki hægt nema húsið verði metið öruggt af þar til bærum aðilum.

Landris er hafið að nýju í Svartsengi sem þýðir að kvika er byrjuð að safnast aftur í kvikuhólfið.  Við þær aðstæður eru auknar líkur á nýju eldgosi.  Umbrotasvæðið er áfram hættusvæði en hættur á svæðinu eru taldar mismiklar.  Í Grindavík er talin töluverð hætta á jarðfalli ofan í sprungur og sprunguhreyfingum.   Tímabil jarðskjálfta og eldgosa virðist ekki lokið á Reykjanesskaga.   Frá því í desember 2023 hefur gosið sex sinnum nærri Grindavíkurbæ.  Jarðvísindamenn hafa hingað til aldrei getað sagt nákvæmlega til um upptök níu eldgosa á svæðinu frá fyrsta gosi 19. mars 2021.  Ef fram heldur sem horfir kemur að því að Veðurstofan lýsi því yfir að gos geti hafist þá og þegar.  Það tímabil getur staðið yfir í margar vikur.  Við þær aðstæður er vandséð að unnt sé tryggja öryggi fólks með fullnægjandi hætti.  Lögreglustjóri hefur hingað til, með afgerandi hætti, varað við hættum á svæðinu.  Það hefur hann gert reglulega í fréttatilkynningum og í viðtölum.  Einstaklingar fara inn á svæðið á eigin ábyrgð.

Unnið er að því að gera Grindavíkurbæ öruggan fyrir gesti og gangandi.  Vonast er til að hægt verði að opna helstu leiðir til og frá Grindavík við óbreytt ástand.   Á sama tíma þurfa menn að hafa í huga að loka getur þurft sömu akstursleiðum við aðsteðjandi hættu án nokkurs fyrirvara.   Aðstæður eru og verða áfram krefjandi í og við Grindavík fyrir viðbragðsaðila.

Út frá Reykjanesbraut og Grindavíkurvegi eru engin skipulögð svæði til að taka á móti ferðamönnum til að njóta eldgosa frá útsýnisstað.  Svæði sunnan Reykjanesbrautar og að hraunjaðri ný runnins hrauns er talið hættulegt vegna sprengna sem þar geta leynst.   Þegar ekki gýs dregur úr áhuga ferðamanna á svæðinu.

Meðal verkefna framkvæmdanefndar vegna jarðhræringa í Grindavíkurbæ (Grindavíkurnefnd) er gerð áhættumats fyrir þéttbýli í Grindavíkurbæ í samvinnu við ríkislögreglustjóra.   Lögreglustjóri bindur vonir við að það líti dagsins ljós fljótlega.