3 Júní 2010 12:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun í júnímánuði fylgjast sérstaklega með búnaði eftirvagna í umdæminu. Reynslan hefur sýnt að búnaði hjólhýsa, tjaldvagna og fellihýsa er á stundum ábótavant með tilheyrandi slysahættu. Ástandið hefur þó lagast síðustu ár. Ökumenn þurfa sérstaklega að huga að skráningu tækjanna áður en lagt er af stað, ljósabúnaði þeirra og festingum við bifreiðina. Þá bendir lögreglan á reglur um hliðarspegla og framlengingu þeirra þegar þess er þörf. Hún bendir ökumönnum líka á að huga að þyngd hjólhýsa sinna, tjaldvagna og fellihýsa; að nota þau til að mynda ekki sem flutningstæki útilegu- eða viðlegubúnaðar enda skal þyngd þeirra ekki vera umfram skráningu.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu mun jafnframt huga að vöntun skráningarmerkja á ökutækjum.