18 Júní 2010 12:00
Maður með falsað vegabréf stöðvaður í Flugstöð Leifs Eiríkssonar
Fimmtudaginn 17.06.2010 stöðvaði lögreglan í Flugstöð Leifs Eiríkssonar mann sem framvísaði vegabréfi annars manns. Maðurinn hefur verið kærður fyrir misnotkun skjals.
Maðurinn kom sama dag frá Ósló og millilenti á Keflavíkurflugvelli til að fljúga áfram til Kanada. Grunsemdir vöknuðu er maðurinn framvísaði norsku vegabréfi við landamæraeftirlitið í Flugstöð Leifs Eiríkssonar. Við nánari skoðun kom í ljós að maðurinn er ekki lögmætur handhafi vegabréfsins.
Maðurinn hafði engin önnur skilríki í fórum sínum en kveðst vera frá Sómalíu.
Þetta er fjórða fölsunarmálið sem upp kemur í Flugstöð Leifs Eiríkssonar það sem af er júnímánuði.