20 Ágúst 2024 08:57

Embætti ríkislögreglustjóra leggur nú lokahönd á nauðsynlegan undirbúning svo lögregla geti tekið rafvarnarvopn til notkunar. Rafvarnarvopnin eru á sama stigi í valdbeitingarstiganum og kylfa og varnarúði og gefa lögreglu aukna möguleika á að velja þann varnarbúnað sem hæfir hverju verkefni. Með því er leitast við að auka á öryggi almennings og lögreglu.

Tækin verða afhent lögregluembættunum í fyrstu viku septembermánaðar. Almenningur getur því átt von á að sjá lögreglumenn bera rafvarnarvopn fljótlega. Rúmlega 460 lögreglumenn hafa hlotið þjálfun og öðlast réttindi til að bera rafvarnarvopn.

Aðeins menntaðir lögreglumenn, sem fengið hafa til þess þjálfun, munu bera rafvarnarvopn og er mikið eftirlit með notkun þess m.a. í formi sjálfvirkra skráninga og sjálfvirkrar myndupptöku úr búkmyndavél. Tölfræði yfir notkun rafvarnarvopna og annarra valdbeitingatækja verður gerð opinber með reglubundnum hætti á vef lögreglu.

Niðurstöður nýrrar könnunar Gallups sýna að rúmur helmingur landsmanna er hlynntur því að lögreglan beri rafvarnarvopn við störf. Í könnun Gallups voru sömu spurningar lagðar fyrir landsmenn og bornar voru undir lögreglumenn í könnun við lok árs 2023.

Könnun Gallups var framkvæmd 7. júní til 4. júlí síðastliðinn og var fjöldi svarenda 2.201. Spurt var um viðhorf til lögreglu, reynslu af afbrotum og ótta við þau. Könnunin var netkönnun og svarhlutfall var 49%.

Helstu niðurstöður eru:  

  • Rúmlega 51 prósent landsmanna segjast mjög eða frekar hlynntur því að lögregla beri rafvarnarvopn við störf sín.
  • Rúmlega 19 prósent landsmanna segjast hvorki hlynntir því né andvíg að lögregla beri rafvarnarvopn við störf sín.
  • Tæplega 30 prósent segjast frekar eða mjög andvíg því að lögregla beri rafvarnarvopn við störf sín. Þar af segjast 12,9 prósent frekar andvíg  og 16,7 prósent mjög andvíg.

Þegar þátttakendur voru spurðir um beitingu rafvarnarvopna í mismunandi aðstæðum þá sagðist mikill meirihluti hlynntur því að beita rafvarnarvopni gegn aðila sem vopnaður er hníf eða ógnar öðrum með hníf og aðila vopnuðum barefli. Það rímar vel við niðurstöður úr árlegri könnun ríkislögreglustjóra á starfsumhverfi lögreglumanna þar sem spurt var að því sama en alls bárust 343 svör í þeirri könnun. Rúm sextíu prósent landsmanna var sammála því að beita rafvarnarvopni gegn aðila sem sýnir ofbeldisfulla hegðun en aðeins 35,5 prósent töldu að beita ætti rafvarnarvopni þegar aðili er í geðrofi eða ekkert samband næst við einstaklinginn. Það er sambærileg niðurstaða og kom fram í könnun meðal lögreglumanna þar sem aðeins um 32 prósent töldu að beita ætti rafvarnarvopni í slíkum aðstæðum.

Landsmenn eru hlynntari því að lögregla beiti rafvarnarvopni gegn aðila sem hótar lögreglu heldur en lögreglumenn sjálfir. Færri eru hlynntir því að beita rafvarnarvopni gegn aðila sem hlýðir ekki fyrirmælum lögreglu. Þá er tæpur helmingur landsmanna á móti því að rafvarnarvopni sé beitt gegn einstaklingum á aldrinum 15 til 18 ára sem sýna ofbeldisfulla hegðun. Rúmur helmingur lögreglumanna var á móti slíku. Tæplega helmingur landsmanna er hlynntur því að lögregla beiti rafvarnarvopnum í óeirðum á meðan aðeins um fjórðungur lögreglumanna var hlynntur því.

Nánari upplýsingar veitir Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, í síma 444-2570 eða helena.sturludottir@logreglan.is.