16 Ágúst 2024 15:21
Páll Árnason var í hópi fyrstu lögreglumannanna í Reykjavík, en hann kom til starfa 1902 og var í lögreglunni til æviloka, en Páll lést 1930. Hann kemur nokkuð við sögu í bókinni Loftklukkan eftir Pál Benediktsson, fyrrverandi fréttamann. Bókin fjallar að stærstum hluta um uppvaxtarár höfundar í Norðurmýrinni, en hann er dóttursonur Páls pólití, sem svo var kallaður. Bókin er stórskemmtileg, en Páll Benediktsson veitti okkur góðfúslegt leyfi til að vitna í bókina þar sem afi hans kemur við sögu og kunnum við honum bestu þakkir fyrir. Dagbækur og gjörðabækur heitir einn kaflinn, en í honum er finna sitthvað sem Páll pólití skráði um athafnir sínar í lögreglustörfum.
„Rannsókn út af kæru frá Tryggva Árnasyni líkkistusmið á Sophanías Baldursson og var hann sektaður um 20 kr. fyrir að keira fram hjá líkfylgd.
Kristmundur Gíslason bílstj. Óðinsgötu 8. var af mjer sektaður um 20 kr. firir að keira ifir Tjarnarbrúna.
Þorsteinsína Gísladóttir, Frakkastíg 20, tilkynnir að gulur stór hundur hafi ráðist á sig á götu og rifið stykki úr kjól og eyðilagt silkisvuntu og sett gat á pilsið. Hundinn á Gísli rakari. Konan gerir 50 króna kröfu til skaðabóta og að hundurinn verði drepinn.
Sesselía Elíasdóttir, Grundarstíg 12, kærir að hundur hafi drepið hænu frá sér. Málið rannsakað.
Símað til Þórarins í Hafnarfirði að hann eigi 2 hrúta í varðhaldi. Símað til Sigurjóns á Görðum á Álftanesi að eigi 2 hrúta. Þórður á Hausastöðum í Garðahverfi með hrúta í óskilum hjá lögreglunni og lofar að senda þangað, láta vita og sækja þá.
Hestar teknir svo margir fastir á götunum að ekki varð tölu á komið af undirrituðum vegna þess að ókunnugt er um hvað hinir lögregluþjónarnir hafa tekið marga en eftir því sem næst verður komist af mjer munu þeir vera kringum 175.“
Á öðrum stað í bókinni, í kaflanum Einsöngur í myrkri, sést glögglega að fjölskylda Páls pólití fór ekki varhluta af störfum hans. „Sérstakan brag setti á heimilislífið á Skólavörðustíg átta að auk gestagangs vegna óráðsíumanna og sveitafólks komu löggurnar tvær sem voru á vakt hverju sinni alltaf í kaffi á kvöldin. Ástæðan var sú að eini vaktsími lögreglunnar í Austurbænum var á heimilinu. Löggurnar fóru í eftirlitsgöngu um aftaninn upp að Gasstöð við Hlemm og komu ætíð við í bakaleiðinni. Það gerðu þeir til að fá vitneskju um hvort nokkuð hefði verið hringt eftir þeim vegna óláta, bruna, innbrota eða annarra atvika í Mið- eða Vesturbænum. Þar var sem sagt ekki hægt að ná í þá nema í vaktsímann hjá afa. Ef útkall varð frá miðstöð áður en þeir komu þurftu systkinin að hlaupa í spreng austur eftir til að finna pólitíin og gera viðvart.“
Í sama kafla segir enn fremur frá því að gjarnan brast á með feikna söng inni í stofu þegar löggurnar á vaktinni komu í kvöldkaffi. Fleiri sópuðust að svo líkja mátti við tónleika og sungu allir saman í kór. Sumir voru þó greinilega betri en aðrir. „Eitt pólitíið var einstaklega góður söngmaður og hafði sérstakt dálæti á Stephan G. Stephanssyni. Þegar hann kom var ævinlega suðað í honum að taka lagið, en einn hængur var á. Hann tók ekki í mál að hefja upp raustina nema öll ljós væru slökkt í stofunni. Það þurfti að vera svartamyrkur að undanskilinni týrunni við píanóið. Annars syngi hann ekki einn einasta tón. Undanbragðalaust var orðið við skilyrðinu. Ástæðan var óvenjuleg að ekki sé meira sagt. Tenórinn raddstóri gretti sig svo mikið og geiflaði við sönginn að hann vildi ekki láta nokkurn mann sjá sig performa. Mamma sagði að söngurinn í dimmri stofunni væri fallegasti söngur sem hún hefði nokkurn tímann heyrt. Hún fengi gæsahúð í hvert sinn við tilhugsunina. Og svo lyngdi hún aftur augum og gaf sig myrkrinu á vald og hinum guðdómlega söng:
Þótt þú langförull legðir
sérhvert land undir fót.
Bera hugur og hjarta,
samt þíns heimalands mót.
Frænka eldfjalls og íshafs,
syfji árfoss og hvers,
dóttir langholts og lyngmós,
sonur landvers og skers.
(Stephan G. Stephansson)“