8 Júlí 2024 16:20
Í síðustu viku slösuðust átján vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 30. júní – 6. júlí, en alls var tilkynnt um 41 umferðaróhapp í umdæminu.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 1. júlí. Kl. 11 var bifreið ekið norður Suðurlandsveg í Reykjavík, á móts við Krókháls, og aftan á aðra bifreið, sem snérist á veginum og hafnaði á vegriði. Tjónvaldurinn ók rakleiðis af vettvangi, en fannst svo síðar á slysadeild eftir að hafa leitað þangað ásamt farþega. Viðkomandi hafði þegar verið sviptur ökuréttindum, en sá var jafnframt grunaður um fíkniefnaakstur. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 15.53 var bifreið ekið um Vatnsendahvarf í Kópavogi þegar annarri bifreið var ekið inn á götuna frá Víkurhvarfi svo árekstur varð með þeim, en biðskylda er fyrir umferð um Víkurhvarf. Ökumaður annarrar bifreiðarinnar er grunaður um ölvunarakstur, en ökumaður hinnar bifreiðarinnar og tveir farþegar hans voru fluttir á slysadeild. Og kl. 17.31 var bifreið ekið vestur Gagnveg í Reykjavík og beygt áleiðis norður Garðhús þegar reiðhjóli var hjólað vestur göngustíg samhliða akbrautinni svo árekstur varð með þeim. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Þriðjudaginn 2. júlí kl. 12.44 var bifreið ekið austur Háteigsveg í Reykjavík að gatnamótum Skipholts/Bólstaðarhlíðar, en á sama tíma var rafmagnshlaupahjóli hjólað á gangstíg suður Skipholt og inn á gatnamótin svo árekstur varð með þeim. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 5. júlí. Kl. 12.42 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á gangstíg við Fríkirkjuveg í Reykjavík þegar hann reyndi að sveigja framhjá fólki á stígnum. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 19.09 var bifreið ekið norður Hafnarfjarðarveg í Garðabæ, við Lækjarfit, og aftan á aðra bifreið, sem var kyrrstæð á rauðu ljósi á gatnamótunum. Tveir farþegar úr bifreiðinni sem ekið var á voru fluttir á slysadeild. Og kl. 19.31 varð tveggja bíla árekstur í Stekkjarbakka í Reykjavík, á móts við dæluhús Veitna. Þeim var ekið úr gagnstæðri átt, en í aðdragandanum fór önnur bifreiðin yfir á öfugan vegarhelming með fyrrgreindum afleiðingum. Báðir ökumennirnir og fjórir farþegar voru fluttir á slysadeild.
Laugardaginn 6. júlí kl. 18.31 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Krókhálsi í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.