23 Júlí 2024 14:45
Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 14. – 20. júlí, en alls var tilkynnt um 29 umferðaróhöpp í umdæminu.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 15. júlí. Kl. 13.51 var bifreið ekið frá bifreiðastæði í Lágmúla í Reykjavík og á reiðhjól, sem var hjólað á gangstétt suður götuna. Hjólreiðamaðurinn fór sjálfur á slysadeild. Kl. 19.55 var bifreið ekið austur Þingvallaveg í Mosfellsbæ, að afleggjara við Hrafnhóla, og aftan á aðra bifreið sem við það kastaðist áfram og aftan á þriðju bifreiðina, en ökumaður hennar hafði dregið úr hraðanum til að taka vinstri beygju á þessum gatnamótum. Einn farþegi var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.05 var bifhjóli ekið austur Miklubraut í Reykjavík, á móts við Klambratún, og utan í vegrið, en við það missti ökumaðurinn stjórn á hjólinu og féll af því. Ökumaðurinn, sem var réttindalaus og bifhjólið án skráningarmerkja, var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 19. júlí kl. 23.59 var bifreið ekið á frárein frá Reykjanesbraut í Kópavogi og á steyptan vegg hjá Orkunni á Dalvegi, en við kastaðist bifreiðin áfram á staura og tanka við bensínstöðina uns hún staðnæmdist á grasbala þarna við. Ökumaðurinn, sem hafði þegar verið sviptur ökuréttindum og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 20. júlí. Kl. 19.57 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á göngu- og hjólastíg við Eiðsgranda í Reykjavík, við skolphreinsistöðina, eftir að hafa hjólað þar á stein á stígnum. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun og var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.10 slasaðist hjólabrettamaður á Ingólfstorgi í Reykjavík þegar hann var að gera kúnstir og rakst utan í bifhjól. Lögreglu barst tilkynning um slysið eftir að hjólabrettamaðurinn leitaði á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.