13 Apríl 2010 12:00
Allmörg fíkniefnamál komu á borð lögreglunnar um helgina. Karl um þrítugt var handtekinn í miðborginni á föstudagskvöld en í íbúð hans fundust kannabisplöntur og lítilræði af amfetamíni. Aðfaranótt laugardags hafði lögreglan afskipti af fjórum mönnum í miðborginni en þeir eru allir grunaðir um fíkniefnamisferli. Um er að ræða óskyld mál en mennirnir, þrír á þrítugsaldri og einn á fimmtugsaldri, voru allir með fíkniefni í fórum sínum, ýmist marijúana eða amfetamín. Síðdegis á laugardag var kona á fimmtugsaldri handtekin í Kringlunni en hún var með marijúana meðferðis. Um svipað leyti var maður á líkum aldri handtekinn í Hafnarfirði en í íbúð hans fundust fíkniefni, m.a. hass. Hass var sömleiðis haldlagt í íbúð í miðborginni á laugardagskvöld en innandyra voru tveir karlar, annar á þrítugsaldri en hinn á fertugsaldri. Snemma á sunnudagsmorgun var maður á fertugsaldri handtekinn í Árbæ en sá reyndi að flýja á tveimur jafnfljótum þegar lögreglan kom á vettvang. Á hlaupunum henti maðurinn frá sér fíkniefnum en um kókaín var að ræða. Þá var lagt hald á marijúana í íbúð í austurborginni á sunnudagskvöld en maður á fertugsaldri var handtekinn í tengslum við málið.