17 Júní 2024 12:16
Til hamingju með daginn, kæru landsmenn! Það verður mikið um vera á höfuðborgarsvæðinu á þjóðhátíðardaginn og skemmtileg dagskrá er í boði víða í umdæminu. Veðurútlitið er bærilegt, en í dag er spáð vestan golu, skýjað og líkur á lítilsháttar vætu. Hiti 8-9 stig. Á degi sem þessum sinnir lögreglan ýmsum hefðbundnum verkefnum, en eitt þeirra er að fylgja forsetanum frá Bessastöðum og til hátíðarathafnar á Austurvelli, en meðfylgjandi myndir voru teknar við það tækifæri í morgun. Á þeim eru forsetahjónin Guðni Th. Jóhannesson og Eliza Reid og lögreglumennirnir Ásgeir Þór Ásgeirsson og Árni Friðleifsson. Forsetinn lætur brátt af störfum, en eftirsjá verður að þeim Guðna og Elizu sem hverfa til annarra starfa eftir átta ár á Bessastöðum.