11 Júní 2024 16:05

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur undanfarna daga haft eftirlit með veitingastöðum og kannað sérstaklega hvort umræddir staðir hafi leyfi til útiveitinga. Með hækkandi sól vilja gestir gjarnan njóta matar og drykkja utandyra við veitingastaði, en til að svo sé heimilit þarf slíkt að vera tilgreint á útgefnu rekstrarleyfi veitingastaða. Í þeim efnum virðist víða vera pottur brotinn, en athugasemdir hafa verið gerðar á um helmingi veitingastaðanna, sem lögreglan hefur heimsótt undanfarið. Sérstaklega hefur þetta verið áberandi með áfengi, en þess hefur gjarnan verið neytt á útisvæðum veitingastaða án þess að leyfi sé fyrir hendi. Samhliða rekstrarleyfi til útveitinga þarf að liggja fyrir starfsleyfi frá heilbrigðisyfirvöldum og afnotaleyfi sveitarfélags vegna borgar/bæjarlands ef það á við. Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu fer með stjórnsýsluákvarðanir í málum sem varðar brot á rekstrarleyfi. Við slíkum brotum liggur sekt og/eða tímabundin svipting leyfis.

Veitingamenn hafa tekið afskiptunum vel, en þeim hefur jafnframt verið góðfúslega bent á að sækja um leyfi til útiveitinga hjá sýslumannsembættinu á höfuðborgarsvæðinu – leyfi@syslumenn.is