26 Apríl 2010 12:00
Föstudaginn 16. apríl 2010 fór brautskráning nemenda Lögregluskóla ríkisins fram við hátíðlega athöfn í Bústaðakirkju. Brautskráðir voru 19 nemendur sem hófu nám við skólann þann 13. janúar 2009. Hlutfall kvenna í hópi brautskráðra var 21,1%.
Auk þeirra sem voru brautskráðir var í nemendahópnum einn nemandi sem ekki náði tilskilinni lágmarkseinkunn í einni námsgrein og þarf því að þreyta endurtökupróf og einn nemandi sem á ólokið lokaprófi í einni námsgrein. Auk þessara féllu tveir nemendur á lokaprófi og eiga ekki endurtökurétt.
Við athöfnina fluttu ávörp Arnar Guðmundsson, skólastjóri Lögregluskóla ríkisins, Þórunn J. Hafstein, ráðuneytisstjóri dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum og Sigurður Ottó Kristinsson, sem talaði fyrir hönd útskriftarhópsins. Lögreglukór Reykjavíkur söng tvö lög við athöfnina.
Arnar Guðmundsson, skólastjóri, ræddi í upphafi ræðu sinnar um fyrirkomulag inntöku nýnema í Lögregluskóla ríkisins, fyrr og nú. Hann sagði frá frumvarpi til breytinga á lögreglulögum en í því er m.a. lagt til að dregið verði úr launakostnaði vegna lögreglunema en á móti kemur að fjárveiting vegna starfsþjálfunar þeirra á að vera trygg.
Arnar rakti skólagöngu þeirra sem nú voru að útskrifast en þeir eru úr hópi 29 nemenda sem hófu nám á fyrstu önn grunnnámsdeildar skólans í ársbyrjun 2009. Einum nemanda var vikið úr skólanum á fyrstu önn, fjórir féllu á prófum annarinnar og einn nemandi ákvað að hætta námi að lokinni fyrstu önn. Það voru því 23 nemendur sem voru í starfsþjálfun í lögreglu ríkisins frá september til desember 2009 og hófu að henni lokinni nám á þriðju önn í byrjun janúar 2010.
Arnar sagði lögreglustarfið vera skemmtilegt og krefjandi starf, það gæti verið mjög erfitt og jafnvel hættulegt. Almennt lögreglunám í Lögregluskóla ríkisins og starfsþjálfun í lögreglu væri nauðsynlegur undirbúningur til að takast á við þetta mikilvæga starf.
Einnig nefndi Arnar að lögreglumenn þurfi að vera agaðir og hafa stjórn á sjálfum sér, vera ráðagóðir, vel á sig komnir líkamlega og hæfilega hugrakkir. Þeir þurfi að kunna að grípa inn í ótrúlegustu aðstæður, oft ófyrirséðar og vinna við margslunginn brotavettvang. Lögreglumenn væru oft kallaðir til vegna ágreiningsmála og þyrftu að vera búnir undir að takast á við óhöpp, slys, bráðaveikindi og einnig erfiðar tilfinningar sem þeir gætu upplifað í lögreglustarfinu.
Í ræðu sinni sagði Arnar að tengsl Lögregluskóla ríkisins við hina vinnandi starfsstétt lögreglunnar væru mikil. Starfsemi beggja deilda skólans, grunnnámsdeildar og framhaldsdeildar, þrífist í raun á samstarfi og samvinnu og að starfsmenn skólans væru stoltir af því að vera hvarvetna vel tekið þegar leitað væri eftir aðstoð við kennslu, fræðslu og þjálfun. Lögreglumenn og aðrir væru boðnir og búnir að koma í skólann til að kenna og leiðbeina, menn þjálfist við að fræða aðra og sú vinna skili sér margfalt til baka til vinnustaðarins sem í hlut á og einnig til starfsmannsins persónulega.
Arnar velti því fyrir sér, í ræðu sinni, hvort stærsti hópurinn í lögreglunni og í flestra huga ímynd lögreglunnar, lögreglumenn, væri fagstétt. Niðurstaða Arnars var sú að hann taldi ekki nokkurn vafa leika á því að lögreglumenn sem starfa í lögreglunni hér á landi mynduðu fagstétt. Þeir gætu státað af faglegum vinnubrögðum þegar þeir gera réttu hlutina á réttan hátt.
Arnar gerði hlutfall kvenna í lögreglunni að umræðuefni en í ársbyrjun 1996 voru 25 konur starfandi í lögreglunni, rúmlega 4% af heildarfjölda lögreglumanna. Með lögreglulögum, sem tóku gildi árið 1997, hafi komið fram vilji löggjafans til að fjölga konum í lögreglu. Liður í því hafi m.a. verið að samkvæmt lögunum væri ekki lengur heimilt að setja skilyrði um lágmarkshæð lögreglunema og aldurshámark hefði verið hækkað.
Arnar sagði að brugðist hafi verið við vilja löggjafans og á árunum 1997 til 2009 hafi 107 konur hafið nám við Lögregluskóla ríkisins, 23,3% nýnema á þessu tímabili. Með þeim sem nú væru að útskrifast væri hlutfall kvenna 21,8% brautskráðra lögreglumanna á tímabilinu 1999 til 2010 og að þann 1. febrúar s.l. hafi 77 konur verið starfandi í lögreglunni eða 11,6% af heildarfjölda lögreglumanna.
Í ræðu sinni sagði Arnar að traust skipti miklu máli í samfélagi manna og nefndi í því sambandi að Gallup hafi kannað traust almennings til nokkurra stofnana og embætta frá árinu 1993. Þar hafi ævinlega fengist staðfest að lögreglan sé stofnun sem njóti mikils trausts meðal almennings og í síðustu könnuninni, sem framkvæmd var í febrúar s.l., komi fram að 81% þeirra sem þátt tóku báru mikið traust til lögreglunnar.
Arnar sagði að mikið og síendurtekið traust á lögreglunni væri ekki nema því aðeins að á vegum lögreglunnar væri stöðugt verið að vinna gott starf. Lögreglan verðskuldi þetta mikla traust en það megi ekkert slaka á og því skipti máli hvað lögreglan geri og hvernig en einnig hvað lögreglan láti hafa eftir sér, ef svo beri við. Þetta eigi ekki síst við um þá sem eru í ábyrgðar- og forystustörfum í lögreglunni en jafnframt sé mikilvægt að allir sem starfa í lögreglunni geri sitt til að viðhalda þessu trausti.
Varðandi traust nefndi Arnar einnig að nýlega hefði Gallup kannað ánægju þjóðarinnar með störf ráðherra ríkisstjórnarinnar og samkvæmt könnuninni ríkti mest ánægja með störf Rögnu Árnadóttur, dómsmála- og mannréttindaráðherra. Rúmlega 65% þjóðarinnar sögðust vera ánægð með störf hennar, tæplega 16 prósentustigum fleiri en í september s.l. þegar samskonar könnun var gerð.
Af starfsemi framhaldsdeildar Lögregluskóla ríkisins nefndi Arnar sérstaklega þrjú verkefni; námskeið í akstri lögreglubifreiða með forgangi en byrjað var á því í desember 2008 og þegar hafa verið þjálfaðir um 200 lögreglumenn frá 13 lögregluembættum; yfirheyrslunámskeið, sem byggja á kröfum í sakamálalögum um upptökur yfirheyrslna og símenntunarnámskeið í valdbeitingu, sem hefur verið haldið í samvinnu við lögreglu höfuðborgarsvæðisins.
Arnar sagði að meðal verkefna sem væru framundan í framhaldsdeild skólans væri vettvangsstjóranámskeið. Námskeið þessi væru m.a. grundvöllurinn fyrir því að öll samhæfing viðbragðs- og björgunaraðila gangi eins og til er ætlast, m.a. í þeim náttúruhamförunum sem verið hafa að undanförnu.
Arnar sagði að sem af er árinu hafi komið liðlega 400 manns á 39 námskeið í framhaldsdeild Lögregluskóla ríkisins. Það væri mikill fjöldi og ánægjulegt að það skuli gerast þrátt fyrir að öll lögregluembætti búi við skerta fjárveitingu.
Þórunn J. Hafstein, ráðuneytisstjóri dómsmála- og mannréttindaráðuneytisins, óskaði nemendum, fyrir hönd Rögnu Árnadóttur, dómsmála- og mannréttindaráðherra, til hamingju með brautskráninguna. Ragna gat því miður ekki verið viðstödd brautskráninguna því að á sama tíma og hún fór fram var hún að mæla fyrir sex frumvörpum á Alþingi, m.a. varðandi fækkun lögregluumdæma á landinu og breytingar á námstilhögun við Lögregluskóla ríkisins.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði m.a. í ávarpi sínu að útskrift úr Lögregluskóla ríkisins væru alltaf mikil tímamót. Það ætti ekki síst við í samfélagi sem væri bugað af mistökum sem ættu sér bæði siðferðislegar og faglegar rætur. Sigríður Björk sagði lögregluna hafa miklu hlutverki að gegna við að reisa Ísland við og endurheimta það sem fór forgörðum. Lögreglan hafi frá upphafi haft skýr markmið, hún hafi jafnan borið gæfu til þess að framfylgja þeim og gert það með því að minna sig stöðugt á það hvers eðlis starf hennar er.
Þegar horft væri yfir nemendahópinn sem lokið hafi krefjandi námi sagði Sigríður Björk að upp í huga hennar kæmi orð sem talsvert væri um rætt á Íslandi þessi misserin. Þetta orð væri fagmennska. Fagmenntaðir lögreglumenn hafi gengið í gegnum nám og stranga þjálfun og tileiknað sér ákveðna eiginleika sem samfélagið krefst af þeim sem sinna eiga því hlutverki sem lögreglan hefur.
Sigríður Björk velti því fyrir sér hvað fælist í fagmennsku. Víst væru ýmis svör við þeirri spurningu en þau hlytu að vera tengd hugtökum eins og menntun, ábyrgð, sérhæfingu og hæfni. Í hennar huga snerist fagmennska einnig um þá vitund að vera hluti af einhverju sem er stærra en einstaklingurinn sjálfur. Manneskja, sem hafi rétt til þess að kenna sig við það fag sem hún hafi sérhæft sig í, tilheyri samfélagi sem geri kröfur. Fagmaðurinn vinni að því að viðhalda þessu samfélagi og bæta það. Í tilviki þeirra sem þjóna í löggæslunni sé hlutskiptið jafnvel enn sérstakara þar sem lögreglan hafi það verðuga hlutverk að tryggja að leikreglum sé fylgt.
Sigríður Björk sagði að tilheyra stóru samfélagi mætti skynja nú, þegar reyndi á stoðirnar við náttúruhamfarir á Suðurlandi. Hún sagðist fyllast stolti yfir því að vera hluti af því að starfssystkin hennar skuli standa fremst meðal jafningja við að skipuleggja viðbrögðin og bjarga ómetanlegum verðmætum. Ef þetta væri hugleitt betur mætti sjá hversu mikil lífsgæði það væru að tilheyra öflugum hópi og í lögreglu væri samheldnin mikil. Þegar vel gangi geti lögregluliðið verið eins og ein stór fjölskylda en það geti líka verið töluverð átök eins og gerðist í mörgum fjölskyldum.
Við nemendur sagði Sigríður Björk að störfum þeirra þyrftu þeir að sinna af vandvirkni og gætni, með myndugleika og fagmennsku að leiðarljósi. Þeir mættu aldrei að gleyma að þeir hefðu þjónustu með höndum sem kostuð væri af borgurum þessa lands með það að markmiði að gæta grunngilda samfélagsins; að tryggja öryggi borgaranna. Þjónusta lögreglunnar væri ein af burðarstoðum samfélagsins og fengur væri í því að fá inn á sviðið þann góða hóp menntaðra lögreglumanna sem væri nú að útskrifast.
Sigurður Ottó Kristinsson, ávarpaði samkomuna fyrir hönd nemendahópsins. Hann rakti skólagönguna og sagði frá eftirminnilegum atvikum frá henni, m.a. verklegum æfingum. Sigurður Ottó sagði þennan tími hafa verið alveg ótrúlega fljótan að líða og í dag stæðu nemendur, stoltir og ánægðir og hæfilega bjartsýnir á framtíðina. Nemendur hefðu hlotið bestu þjálfun í löggæslu sem völ væri á og væru tilbúnir til að takast á við þau margvíslegu verkefni sem lögregla þyrfti að taka sér fyrir hendur.
Sigurður Ottó sagði þann skugga vera á útskriftinni að atvinnuhorfur væru ekki góðar. Lögreglan á Íslandi væri undirmönnuð og í starfsþjálfun nemendanna hefðu þeir orðið varir við þreytu sem virtist vera komin í lögreglumenn, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Starf lögreglumannsins væri krefjandi og mikilvægt að ganga ekki of nálægt þreki lögreglumanna með of miklum niðurskurði á stöðugildum hjá lögreglu. Ef ekki væri fyrir ósérhlífni, hæfni og áhuga starfandi lögreglumanna myndi löggæslan ekki ganga upp.
Að lokum sagði Sigurður Ottó að nú væri tími til að gleðjast. Hann þakkaði, fyrir hönd útskriftarnemenda Lögregluskóla ríkisins, kennurum og öðrum starfsmönnum skólans fyrir það mikla starf sem þeir hefðu lagt á sig til að gera skólann að því sem hann er. Námið hafi verið erfitt en skemmtilegt og allir nemendur stæðu þarna í dag örlítið betri manneskjur en þeir voru áður.
Hæstu meðaleinkunn á lokaprófum náði Jóhann Birkir Guðmundsson með meðaleinkunnina 9,17, í öðru sæti varð Emil Sigurðsson með meðaleinkunnina 9,14 og í þriðja sæti varð Grétar Stefánsson með meðaleinkunnina 8,93. Allir þessir nemendur fengu viðurkenningu frá skólanum fyrir góðan námsárangur. Meðaleinkunn allra útskriftarnemendanna var 8,08.
Þórunn J. Hafstein afhenti Halldóri Jóhanni Sigfússyni sérstaka viðurkenningu fyrir að ná glæstum árangri í íslensku. Viðurkenningin er annars vegar farandbikar, sem gefinn var af dómsmálaráðherra, og hins vegar bókarverðlaun sem gefin eru af Landssambandi lögreglumanna.
Lögreglufulltrúarnir sem starfa við Lögregluskóla ríkisins völdu úr hópi nemenda Lögreglumann skólans og varð Sigurður Ottó Kristinsson fyrir valinu.
Árni Sigmundsson, deildarstjóri grunnnámsdeildar skólans, afhenti Sigurði Ottó viðurkenningu og þakkaði við það tækifæri nemendahópnum fyrir ánægjulegar samverustundir og góða viðkynningu. Hann sagðist vona að í minningunni hugsuðu nemendur með ánægju og jafnvel söknuði til þess tíma sem þeir voru í skólanum.
Árni brýndi fyrir nemendunum að vera jákvæða, bjartsýna og lífsglaða en sogast ekki inn í hringiðu neikvæðni og svartnættis. Þeir ættu að koma fram við alla af kurteisi og virðingu og aldrei að sýna nokkrum manni hroka eða lítilsvirðingu.
Í lok brautskráningarinnar talaði Arnar Guðmundsson, skólastjóri, beint til nemendanna. Hann sagði þá vita mætavel að þess sé krafist af lögreglumönnum að þeir starfi af fagmennsku og gagnvart borgurum sé krafist kurteisi, heiðarleika og hjálpsemi af lögreglumönnum. Lögreglumenn skuli sýna yfirmönnum sínum og samstarfsmönnum traust og trúmennsku.
Arnar sagðist ganga út frá því að allir nemendurnir hefðu áhuga á lögreglustarfi og það væru forréttindi fyrir áhugasamt ungt fólk, í upphafi að vera valið til að fá að stunda lögreglunám; síðan að fá staðfestingu á því að hafa faglega og líkamlega burði og færni til að geta tekið að sér lögreglustarf og að lokum að komast í slíkt starf. Arnar dró ekki ekki dul á þá staðreynd að það ríkti óvissa um nýráðningar í lögregluna og að ekki væri víst að ráðið verði á næstunni í störf sem kunna að losna.
Að lokum sagði Arnar að með frumvarpi dómsmálaráðherra um breytingar á lögreglulögum væri stefnt að hagræðingu í rekstri lögreglustofnana og jafnframt væri stefnt að sameiningu og stækkun embætta. Slík breyting, ef af henni yrði, gæti skapað ný tækifæri og hann leyfði sér því að vera bjartsýnn um framtíðina. Hann sagðist vona að fljótlega verði þörf og möguleiki að nýta starfskrafta þeirra sem nú væru að útskrifast sem lögreglumenn og annarra sem nýlega hafa lokið lögreglunámi.