4 Júní 2024 16:11

Karlmaður var handtekinn á föstudag og færður til yfirheyrslu í þágu rannsóknar Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á nokkrum tilvikum í Hafnarfirði í síðasta mánuði þar sem maður veittist að börnum. Að lokinni yfirheyrslu var hinn sami laus úr haldi, en málin eru enn óupplýst. Eins og fram hefur komið jók lögreglan eftirlit sitt í Hafnarfirði vegna þessa og því verður framhaldið. Rannsókn málanna er í forgangi hjá embættinu og allt kapp er lagt á að finna þann sem þarna var að verki.

Ýmsar ábendingar hafa borist lögreglu og er þeim öllum fylgt eftir. Ein þeirra barst um síðustu helgi, en þar greindi frá manni sem hafði veist að barni/börnum í verslunarmiðstöðinni Firði og var m.a. sagður hafa hrópað að þeim fúkyrði. Höfð voru afskipti af umræddum manni, en hann er ekki með neinum hætti talinn tengjast áðurnefndum atvikum í bænum í maí.