Frá vettvangi á gatnamótum Faxafens og Fákafens.
23 Maí 2024 16:52

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í átta umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 12. – 18. maí, en alls var tilkynnt um 25 umferðaróhöpp í umdæminu.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 12. maí. Kl. 11.39 var reiðhjóli hjólað í hlið bifreiðar sem var ekið suður Lækjarberg í Hafnarfirði, að gatnamótum Hlíðarbergs. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 12.45 var bifreið ekið vestur Suðurbraut í Hafnarfirði, á móts við Reykjanesbraut, og aftan á aðra bifreið á sömu leið. Ökumaður og farþegi úr fremri bifreiðinni voru fluttir á slysadeild. Og kl. 21.59 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli í Hamraborg í Kópavogi. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 14. maí. Kl. 9.06 var rafskútu ekið á gangandi vegfaranda á gatnamótum Miklubrautar og Háaleitisbrautar í Reykjavík. Í aðdragandanum var rafskútunni ekið yfir gatnamótin til norðurs og aftan á vegfarandann sem var á sömu leið. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Kl. 11.08 var bifreið ekið um Hamraborg í Kópavogi og á rafmagnshlaupahjól, sem þveraði götuna. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.13 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Barónsstíg í Reykjavík, við Eiríksgötu. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 15. maí kl. 17.36 varð árekstur bifhjóls og bifreiðar á gatnamótum Fákafens og Faxafens í Reykjavík, við veitingastaðinn Metro. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið vestur Fákafen og hugðist ökumaður hennar beygja til vinstri og aka Faxafen til suðurs. Á sama tíma var bifhjóli ekið austur Fákafen og varð árekstur með þeim, en við það kastaðist bifhjólið á aðra bifreið á gatnamótunum. Bifhjólamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 17. maí kl. 23.45 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Engjavegi í Reykjavík, við Laugardalshöll. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.