16 Maí 2024 13:53
Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar nú tildrög þess að maður var hætt kominn er bátur hans tók inn á sig sjó 6 sjómílum út af Sandgerði sl. nótt. Mannbjörg varð, er manninum, sem jafnframt var skipstjóri bátsins, var bjargað í nærliggjandi bát er var skammt undan. Tilkynning um slysið barst Neyðarlínu um kl. 02:49 í nótt og hafði skipstjóra bátsins verið bjargað um borð í nærliggjandi bát um kl. 02:55. Báturinn maraði þá í hálfu kafi, en var dreginn í Sandgerðishöfn þar sem hann var hífður á land. Rannsóknarnefnd samgönguslysa var gert viðvart um atvikið og hefur hún sjálfstæða rannsókn á atvikum slyssins. Rannsókn lögreglu miðar að því að upplýsa um tildrög slyssins og er á frumstigi. Til skoðunar er hvort að um árekstur tveggja sjófara hafi verið að ræða og því hefur verið leitað aðstoðar lögreglunnar í Vestmannaeyjum vegna hluta af rannsóknar málsins. Ekki er unnt að upplýsa frekar um gang rannsóknar að svo komnu máli.