11 Mars 2010 12:00
Þrír ökumenn voru teknir fyrir aka undir áhrifum fíkniefna í höfuðborginni í gær og nótt. Um miðjan dag var kona á þrítugsaldri tekin fyrir þessar sakir í austurborginni en hún var á stolnum bíl. Konan, sem hafði þegar verið svipt ökuleyfi, reyndi að ljúga til nafns. Um miðnætti veitti lögreglan ökumanni stutta eftirför í Árbæ en henni lauk á bifreiðastæði við Krókháls þar sem lögreglustöðin er til húsa. Ökumaðurinn, karl á fertugsaldri, reyndi að komast undan á tveimur jafnfljótum en var hlaupinn uppi. Hann hafði líka þegar verið sviptur ökuleyfi. Loks var tvítugur piltur stöðvaður við akstur á Snorrabraut í nótt en hann var sömuleiðis undir áhrifum fíkniefna. Með honum í för var karl á þrítugsaldri en sá var einnig handtekinn og færður á lögreglustöð en í bíl þeirra fundust jafnframt fíkniefni.