16 Apríl 2024 07:35
Lögreglustjórinn á Vestfjörðum, sýslumaðurinn á Vestfjörðum, sveitarfélögin Árneshreppur, Kaldrananeshreppur, Strandabyggð, Reykhólahreppur, Vesturbyggð, Tálknafjarðarhreppur, Ísafjarðarbær, Bolungarvík og Súðavíkurhreppur, Heilbrigðisstofnun Vestfjarða, Heilbrigðisstofnun Vesturlands, Menntaskólinn á Ísafirði, Framhaldsskóladeild Fjölbrautaskóla Snæfellinga og Vestfjarðastofa, hafa ákveðið að vinna saman gegn ofbeldi og öðrum afbrotum undir heitinu Öruggari Vestfirðir.
Undirrituð var yfirlýsing þess efnis á fyrsta samráðsfundi Öruggara Vestfjarða í stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði þann 9. apríl síðastliðinn. Við það tilefni voru kynnt verkefni samstarfsaðila og lagðar línur um áherslur næsta árið. Þær verða annars vegar aukið þverfaglegt samvinna vegna heimilisofbeldis, kynferðisbrota og aðstoð við einstaklinga í viðkvæmri stöðu og hins vegar forvarnir og fræðsla vegna barna og ungmenna. Á fundinum var skipað framkvæmdateymi um verkefnið í heild sinni.
Unnið að svæðisbundnu samráði á landsvísu
Markmið Öruggara Vestfjarða er m.a. að auka skilning á ofbeldi og skaðsemi þess, þekkingu á forvörnum gegn ofbeldi og öðrum afbrotum og þeirri þjónustu sem verið er að veita í landshlutanum, ásamt því að efla samstarfsaðila í að takast á við áföll og ofbeldi og bæta samvinnu við úrlausn mála á svæðinu.
Unnið er að mótun sambærilegra verkefna hjá öðrum lögregluembættum í samræmi við áherslur stjórnvalda á varnir gegn ofbeldi og öðrum afbrotum.
Tölfræði um Vestfirði
Greining gagna er undirstaða svæðisbundins samráðs um afbrotavarnir. Á fundinum kom m.a. fram að hærra hlutfall barna á Vestfjörðum segist hafa beitt ofbeldi eða hótað ofbeldi síðastliðna 12 mánuði en að jafnaði á landsvísu samkvæmt gögnum Rannsóknar og greiningar. Sjaldgæft er að slík mál séu tilkynnt til lögreglu.
Greining á gögnum lögreglu, niðurstöðum íslenskra æskulýðsrannsókna og Áfallasögu kvenna benda einnig til að heimilisofbeldi sé vantilkynnt á Vestfjörðum.
Nánari upplýsingar veita:
Kristján Óskar Ásvaldsson, ákæru- og forvarnarfulltrúi lögreglustjórans á Vestfjörðum, netfang koa01@logreglan.is
Eygló Harðardóttir, verkefnisstjóri afbrotavarna hjá ríkislögreglustjóra, netfang eyglohardar@logreglan.is