2 Febrúar 2010 12:00
Fimm líkamsárásir voru tilkynntar til lögreglunnar um helgina. Ein átti sér stað aðfaranótt laugardags og fjórar aðfaranótt sunnudags. Í miðborginni fékk karl um fertugt skurð á hnakkann eftir að hafa verið sleginn hnefahöggi. Á sama stað var karl á þrítugsaldri handtekinn eftir að hafa veist að dyravörðum en einn þeirra sat eftir með brotna tönn. Í miðborginni var karl á fimmtugsaldri ennfremur bitinn í handlegginn en málsatvik voru að mestu leyti óljós. Í miðbæ Hafnarfjarðar var ráðist á karl um fertugt en árásarþolinn var lemstraður og jafnvel nefbrotinn eftir árásarmanninn en sá er sömuleiðis um fertugt. Og í heimahúsi á höfuðborgarsvæðinu lagði karl á þrítugsaldri til manns á svipuðum aldri með sverði. Sá sem fyrir því varð var fluttur á slysadeild en sauma þurfti allnokkur spor í höfuð árásarþolans. Árásarmaðurinn var handtekinn en ekki er vitað hvað honum gekk til en mennirnir höfuð setið að sumbli.