21 Febrúar 2024 09:01
  • 8% aukning tilkynninga um heimilisofbeldi og ágreining, samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára.
  • Fleiri mál eru vegna ofbeldis gegn maka eða fyrrverandi maka.
  • Færri beiðnir um nálgunarbann.

Ný skýrsla ríkislögreglustjóra um tilkynningar til lögreglu um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila fyrir árið 2023 hefur verið birt á vefsvæði lögreglunnar. Á landsvísu fékk lögregla 2.415 tilkynningar um heimilisofbeldi og ágreining milli skyldra/tengdra aðila árið 2023.

Jafngildir það að meðaltali tæplega 7 slíkum tilkynningum á dag, eða 201 tilkynningum á mánuði. Er það rúmlega 8% aukning samanborið við síðustu þrjú ár þar á undan.

Ef litið er til ársins 2022 var lítil breyting í fjölda tilkynninga.

Fjöldi beiðni um nálgunarbann færri

Beiðnir um nálgunarbann voru 89 eða um 30% færri að fjölda en síðastliðin 3 ár á undan.  Alvarlegustu heimilisofbeldismálin, þar sem lífi og heilsu árásarþola var ógnað endurtekið eða á alvarlegan hátt, voru 102 talsins árið 2023,  eða 17% færri mál en meðaltal síðustu þriggja ára.

Ríkissaksóknari hefur gefið út ný fyrirmæli til ákærenda um nálgunarbann og brottvísun af heimili. Þar er meðal annars fjallað um vægari úrræði ef viðkomandi hefur ekki áður gerst sekur um brot gegn nálgunarbanni eða brottvísun, handlagningu síma og tölvu og notkun á ökklabandi við ítrekuð brot.

Heimilisofbeldi er skilgreint sem ofbeldi sem einstaklingur verður fyrir af hendi nákomins, þ.e. árásaraðili og árásarþoli eru skyldir, tengdir eða hafa sögu um tengsl og eru tilvikin ekki bundin við heimili fólks. Útköll lögreglu þar sem ekki er grunur um brot eru skráð sem ágreiningur á milli skyldra og tengdra. Mikilvægt þykir að skrá bæði ágreining og heimilisofbeldi til að fá heildstæða mynd af tilvikum og hvort tilvik leiði til ítrekaðra og alvarlegri atvika.

Vísbendingar um að fjölskylduofbeldi hafi aukist á tímum Covid-19

Þegar eingöngu er litið til heimilisofbeldismála, þ.e. tilvika þar sem grunur er um brot á borð við líkamsárásir, hótanir eða eignaspjöll, þá voru tilvikin 1.131. Tilkynningar um ágreining milli skyldra/tengdra aðila voru 1.284.

Vísbendingar eru um að helsta skýring á fjölgun tilkynninga um heimilisofbeldi á tímum heimsfaraldurs Covid-19 megi rekja til aukins fjölskylduofbeldis frekar en ofbeldis í núverandi eða fyrrverandi parasamböndum.  Þegar tengsl árásaraðila og árásarþola eru skoðuð árið 2023 kemur í ljós að heimilisofbeldismálum milli hjóna, sambúðarfólks eða hjá pari fjölgar um 8% samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára þar á undan. Málum þar sem fjölskyldutengsl eru önnur hefur hins vegar fækkað árið 2023 um 3% samanborið við meðaltal síðustu þriggja ára þar á undan.

Í 77% tilvika heimilisofbeldis var árásaraðili karl og í 68% tilvika var brotaþoli kona. Árásarþolar voru 1.076 sem er 16% aukning samanborið við meðaltal árásarþola síðustu þrjú ár á undan.  Þegar horft er til tilvika heimilisofbeldis þar sem um er að ræða ofbeldi milli maka eða fyrrum maka eru 80% árásaraðila karlar og rúm 75% árásarþola eru konur.

Skýrsluna má finna hér.

Ætíð er hægt að tilkynna brot með því að hafa samband við 112. Á ofbeldisgátt 112.is  má einnig finna nánari upplýsingar um þau úrræði sem standa til boða.

——

Nánari upplýsingar veitir Helena Rós Sturludóttir, samskiptastjóri ríkislögreglustjóra, í síma 444-2570 eða helena.sturludottir@logreglan.is