12 Febrúar 2024 14:00
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefur markað sér stefnu til næstu fimm ára og gildir hún frá 2024-2028. Samhliða breyttum heimi tekst embættið á við ýmsar áskoranir, en þeim fylgja líka tækifæri til að takast á við málin með sem bestum hætti. Miklar breytingar hafa orðið á starfsumhverfi lögreglu undanfarin ár og viðbúið að svo verði áfram. Hér hefur orðið þróun sem er sambærileg því sem gerist erlendis og taka verður mið af því.
Traust, fagmennska og öryggi eru áfram þau gildi sem Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu vill standa fyrir, en gert er ráð fyrir endurskoðun og uppfærslu stefnunnar eigi sjaldnar en á tveggja ára fresti. Vonast er eftir góðum árangri í mörgum þeirra málaflokka sem eru tilteknir í stefnunni og m.a. af þeirri ástæðu er regluleg endurskoðun hennar nauðsynleg.
Öllum starfsmönnum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu var boðið að taka þátt í mótun stefnunnar og voru undirtektir með miklum ágætum. Vilji þeirra til að gera vel endurspeglast í stefnu embættisins fyrir árin 2024-2028.