Frá vettvangi við Elliðavatnsveg.
29 Janúar 2024 16:18

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 21. – 27. janúar, en alls var tilkynnt um 31 umferðaróhapp í umdæminu.

Miðvikudaginn 24. janúar kl. 6.17 varð tveggja bíla árekstur í Stekkjarbakka í Reykjavík, á móts við Fremristekk, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Í aðdragandanum fór önnur bifreiðin yfir á öfugan vegarhelming með fyrrgreindum afleiðingum. Slydda og snjókrapi var á vettvangi. Þrír voru fluttir á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 25. janúar. Kl. 16.16 varð tveggja bíla árekstur á Elliðavatnsvegi í Garðabæ, norðan Heiðmerkurvegar, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Í aðdragandanum rann önnur bifreiðin yfir á öfugan vegarhelming með fyrrgreindum afleiðingum, en báðar bifreiðirnar höfnuðu utan vegar. Hálka og snjókrapi var á vettvangi. Fjórir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 16.34 varð tveggja bíla árekstur í Breiðhellutorgi í Hafnarfirði. Í aðdragandanum var vörubifreið ekið austur Krýsuvíkurveg og inn í Breiðhellutorg, en á sama tíma var annarri bifreið ekið um torgið og varð árekstur með þeim. Hálka og snjóþæfingur var á vettvangi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 27. janúar. Kl. 14.15 var bifreið ekið Skemmuveg í Kópavogi, frá Byko Breidd, inn á Nýbýlaveg og áleiðis í vinstri beygju austur Breiðholtsbraut. Á sama tíma var annarri bifreið ekið norður Dalveg með fyrirhugaða akstursleið inn á Skemmuveg og varð árekstur með þeim. Hálka og snjóþæfingur var á vettvangi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.19 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut í Kópavogi, á móts við Orkuna, en þar missti ökumaðurinn stjórn á henni þegar „svínað“   var fyrir hann. Við það fór bifreiðin utan vegar, á ljósastaur og hafnaði síðan á vegriði. Hálka og snjóþæfingur var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.