27 Desember 2023 13:56
Skýrsla ríkislögreglustjóra 2023 vegna peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka var gefin út í dag. Um er að ræða uppfært áhættumat frá árinu 2021 þar sem fjallað er ítarlega um stöðu og helstu áhrifaþætti skattsvika, sýndareigna, reiðufjársviðskipta, rafmynta og peningasendinga. Helstu niðurstöður skýrslunnar má finna hér að neðan og heildar skýrsluna má finna hér:
- Skattsvik eru ennþá talin algengustu frumbrot peningaþvættis á Íslandi og greind áhætta af þeim metin mikil. Brot sem tengjast misnotkun á virðisaukaskattkerfinu, t.a.m. með notkun tilhæfulausra reikninga, eru kerfisbundin og umfangsmikil. Ýmsar breytingar hafa verið gerðar á undanförnum árum til að mæta þessu, t.a.m. á fyrirkomulagi við rannsókn og saksókn skattalagabrota og gerðar hafa verið breytingar á lögum um tekju- og virðisaukaskatt.
- Sem fyrr er reiðufé og notkun þess talinn alvarlegasti einstaki áhættuþáttur peningaþvættis hér á landi sem og annars staðar í heiminum. Á Íslandi eru engar hömlur á notkun reiðufjár, hægt að greiða með reiðufé nánast hvar sem er og eftirlit með notkun þess er af skornum skammti. Þá er talið auðvelt og ódýrt að smygla reiðufé til og frá landinu en örfá mál sem varða flutning á reiðufé yfir landamæri hafa komið upp hjá tollgæslu á undanförnum árum. Eftirlit með flutningi reiðufjár og annarra verðmæta til og frá landinu er ábótavant og lagaleg úrræði takmörkuð að einhverju leyti. Greind peningaþvættisáhætta af reiðufjárviðskiptum og flutningi á reiðufé til og frá Íslandi er metin mikil.
- Notkun og færni brotamanna til að þvætta afrakstur ólöglegrar starfsemi með sýndareignum er að færast í aukana. Þá eru sýndareignir algengur greiðslumiðill til að greiða fyrir ólöglegar vörur og þjónustu. Umfang sýndareigna á Íslandi er ekki þekkt en kannanir benda til þess að Íslendingar séu ekki eftirbátar annarra ríkja Evrópu þegar kemur að viðskiptum með sýndareignir. Þá eru vísbendingar um að brotamenn hér á landi séu farnir að ráðstafa ávinningi af brotastarfsemi til þess að kaupa sýndareignir með það að markmiði að þvætta fjármuni og koma fjármunum hratt á milli landa. Skortur Sfl., lögreglu og eftirlitsaðila á nauðsynlegum búnaði, verklagsreglum og sérþekkingu til að rannsaka mál er varða sýndareignir er því veikleiki og áhætta af sýndareignum metin mikil. Hagkerfi sýndareigna er ungt og áhættur m.t.t. peningaþvættis og fjármögnunar hryðjuverka eru enn að koma fram. Mikilvægt er að nýlega samþykkt regluverk ESB um markaði með sýndareignir (MiCA) verði tekið inn í íslensk lög.
- Í síðasta áhættumati var áhætta af peningasendingum metin mikil og hæst allra þátta sem metnir voru í tengslum við innlendan fjármálamarkað. Umfang þessarar starfsemi hefur hins vegar minnkað umtalsvert á síðustu árum samhliða því að eftirlitið hefur verið bætt og greind áhætta af peningasendingum því metin veruleg að þessu sinni. Það sama á við um innlánastarfsemi, greiðsluþjónustu, gjaldeyrisskipti með reiðufé, útgáfu rafeyris og viðskipti og þjónustu með sýndareignir, en áhætta af síðastnefnda matsþættinum er talin hafa aukist samhliða aukinni notkun og áhættu tengdri sýndareignum.
- Í síðasta áhættumati var áhætta tengd spilakössum metin mikil en í ljósi aukins eftirlits og umfangsmeiri varna rekstraraðila er hún metin veruleg að þessu sinni. Þá er aðgengi á Íslandi að erlendum fjárhættuspilum á netinu ekki háð neinum takmörkunum og innlent eftirlit af skornum skammti. Umfang þátttöku aðila búsettra hér á landi í fjárhættuspilum á erlendum vefsíðum er talið umtalsvert og vísbendingar eru um að brotamenn á Íslandi nýti spilareikninga á slíkum síðum til peningaþvættis og er áhætta metin mikil.
- Sem fyrr eru einkahlutafélög það félagaform sem talið er algengast að sé nýtt til þess að þvætta ólögmætan ávinning og dylja raunverulegt eignarhald og er greind áhætta af einkahlutafélögum enn metin mikil. Fjölmargar leiðir sem brotamenn nota til þessa þvætta fjármuni í gegnum félög hafa viðgengist á Íslandi í skjóli, að því er virðist, ákveðinnar menningar og skorts á eftirliti, lagaúrræðum og viðurlögum. Ýmislegt hefur verið gert á undanförnum árum til þess að reyna stemma stigu við misnotkun á félögum, t.d. voru sett lög um skráningu raunverulegra eiganda árið 2019 og breytingar hafa verið gerðar á ýmsum lögum með það að markmiði að koma í veg fyrir kennitöluflakk, s.s. með atvinnurekstrarbanni.
- Áhætta af fjármögnun hryðjuverka var metin út frá fjórum matsþáttum að þessu sinni. Þeir eru; flutningur reiðfjár yfir landamæri, flutningur fjármuna til og frá Íslandi í gegnum fjármálakerfið, flutningur fjármuna til og frá Íslandi með peningasendingum og starfsemi almannaheillafélaga yfir landamæri. Greind áhætta fyrir fyrstu þrjá matþættina er metin miðlungs en lítil fyrir þann síðasta. Í september 2022 tilkynnti lögregla um rannsókn á ætluðu hryðjuverkabroti en um er að ræða fyrstu rannsókn og ákæru vegna hryðjuverkabrota á Íslandi. Aldrei hefur verið gefin út ákæra vegna fjármögnunar hryðjuverka. Veikleikar Íslands til þess að takast á við fjármögnun hryðjuverka lúta fyrst og fremst að heimildum til þess að afla upplýsinga og gagna án þess að afbrot hafi verið drýgt.