21 Desember 2023 14:00
Lögreglan á Norðurlandi vestra fór fyrir fræðslu til handa eldri borgurum í umdæminu þar sem fjallað var um netsvik og annað ólöglegt athæfi á netinu. Fræðslan var unnin í samstarfi við félög eldri borgara í umdæminu og Arion banka. Með umsjón með fræðslunni hafði Ásdís Ýr Arnardóttir, sérfræðingur hjá embættinu, og með henni í för voru lögreglumenn og konur frá starfsstöðvum embættisins.
Fræðslan var vel sótt, haldin voru 6 fræðsluerindi víðsvegar um embættið, á Hofsósi, Blönduósi, Skagaströnd, Hvammstanga, í Varmahlíð og á Sauðárkróki. Okkur telst til að hátt í 200 manns hafi sótt erindin heim.
Meðal þess sem fjallað var um voru netsvindl, svik og ýmiskonar ólöglegt athæfi á netinu. Sýnd voru dæmi þess er varða misnotkun á persónuupplýsingum og innbrot í samfélagsmiðla, heimabanka og tölvupósta.
Þá var einnig fjallað mikilvægi þess að tilkynna til lögreglu og/eða viðskiptabanka ef við komandi telur möguleika á því að svindlað hafi verið á sér. Tiltölulega fá slík mál rata inn á borð lögreglu í embættinu en nauðsynlegt er að auka vitund almennings á eðli slíkra brota með það fyrir augum að reyna að stöðva þau, eða draga úr mögulegu tjóni vegna þeirra.