14 Nóvember 2023 10:15

Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 5. – 11. nóvember, en alls var tilkynnt um 43 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 5. nóvember. Kl. 0.46 var vespu ekið á ljósastaur við göngustíg í Fensölum í Kópavogi. Ökumaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm og er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Og kl. 1.05 var bifreið ekið á umferðarskilti í Reykjavík, sem við það féll á gangandi vegfaranda sem átti þar leið um. Hann var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 6. nóvember. Kl. 8.28 varð árekstur tveggja reiðhjóla á gangstétt á Bústaðavegi í Reykjavík, við Valsheimilið, en þeim var hjólað í sömu átt, þ.e. austur. Í aðdragandanum ætlaði sá sem var fyrir aftan að fara fram úr hinum, en þá sveigði sá síðarnefndi í veg fyrir þann fyrrnefnda svo árekstur varð með þeim. Annar þeirra var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.55 var bifreið ekið aftan á aðra bifreið við hringtorg á Bæjarhálsi við Selásbraut í Reykjavík. Fremri bifreiðin var þá kyrrstæð, en ökumaður hennar beið þess að komast inn í hringtorgið vegna umferðar. Aftari bifreiðin var á sumardekkjum, en hálka var á vettvangi. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 7. nóvember. Kl. 12.45 var bifreið ekið aftan á aðra bifreið, sem var kyrrstæð á rauðu ljósi á gatnamótum Strandvegar og Rimaflatar í Reykjavík. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 12.48 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda á gangbraut á Bústaðavegi í Reykjavík, sunnan við Litluhlíð. Í aðdragandanum sagðist ökumaðurinn hafa blindast af sólinni. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 8. nóvember. Kl. 14.36 var bifreið ekið á öfugum vegarhelmingi vestur Stekkjarbakka í Reykjavík, við Hamrastekk, og á bifreið sem kom úr gagnstæðri átt. Þriðja bifreiðin kom svo aðvífandi og ók á hinar tvær. Sá sem ók á öfugum vegarhelmingi hafði þegar verið sviptur ökuréttindum og var auk þess grunaður um fíkniefnaakstur. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.50 hafnaði bifreið utan vegar og valt á Kjósarskarðsvegi, við Hvalfjarðarveg. Tveir voru fluttur á slysadeild.

Föstudaginn 10. nóvember kl. 21.45 var bifreið ekið aftan á aðra bifreið, sem var kyrrstæð við hringtorg á Arnarnesvegi í Kópavogi, við Reykjanesbraut, en ökumaður hennar beið þess að komast inn í hringtorgið vegna umferðar. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.  

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.