Frá vettvangi á Fríkirkjuvegi í Reykjavík.
5 Desember 2023 13:32

Í síðustu viku slösuðust fjórtán vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 26. nóvember – 2. desember, en alls var tilkynnt um 45 umferðaróhöpp í umdæminu.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 26. nóvember. Kl. 11.57 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli á gangstétt við hringtorgið Hellnatorg í Hafnarfirði. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Og kl. 17.40 var bifreið ekið frá Grænumýri á Seltjarnarnesi og beygt austur Nesveg, en þar hafnaði hún á hjólastól, sem þveraði veginn. Maður var stólnum, sem féll á hliðina, og var hann fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 27. nóvember kl. 7.12 var bifreið ekið vestur Miklubraut í Reykjavík og aftan á strætó við biðskýli, á móts við Kringluna. Ökumaður fólksbifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 28. nóvember kl. 11.56 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut í Hafnarfirði, inn í Hlíðartorgi og á aðra bifreið, sem á sama tíma var ekið út úr hringtorginu inn á Lækjargötu. Ökumaður fyrrnefndu bifreiðarinnar sagðist í aðdragandanum hafa blindast af sólinni og því ekki séð hina bifreiðina. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 30. nóvember kl. 16.17 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda í Lyngbrekku í Kópavogi. Ökumaðurinn sagðist ekki hafa séð vegfarandann í aðdraganda slyssins, en sá fór út á götuna á milli kyrrstæðra bifreiða. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 1. desember. Kl. 8.25 var bifreið ekið norður Fífuhvammsveg í Kópavogi og beygt til vinstri, að aðrein að Hafnarfjarðarvegi. Í sama mund var annarri bifreið ekið suður Fífuhvammsveg svo árekstur varð með þeim. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild, en hinn ætlaði þangað sjálfur á eigin vegum. Kl. 9.35 varð þriggja bíla árekstur á gatnamótum Arnarnesvegar og Salavegar í Kópavogi. Í aðdragandanum var bifreið ekið vestur Arnarnesveg og annarri suður Salaveg svo árekstur varð með þeim á gatnamótunum. Þriðja bifreiðin, sem einnig var ekið vestur Arnarnesveg, hafnaði svo aftan á þeirri sem var fyrir framan og hafði þegar lent í árekstri. Einn ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.40 var bifreið ekið norður Smárahvammsveg í Kópavogi þegar annarri bifreið var ekið frá Hlíðasmára, inn á Smárahvammsveg, svo árekstur varð með þeim. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild, en hinn ætlaði þangað sjálfur á eigin vegum.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 2. desember. Kl. 14.31 var bifreið ekið norður Fríkirkjuveg í Reykjavík þegar annarri bifreið var ekið út úr bifreiðastæði við götuna, og í sömu akstursátt, svo árekstur varð með þeim. Við það valt fyrrnefnda bifreiðin, en ökumaður þeirra síðarnefndu sagðist hafa blindast af sólinni í aðdraganda slyssins. Tveir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 15.55 varð tveggja bíla árekstur á Vífilsstaðavegi í Garðabæ, við golfvöllinn, en þeim var ekið úr gagnstæðri átt. Tveir fóru á eigin vegum á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.