20 Nóvember 2023 14:18
- Umtalsverð fækkun tilkynninga um kynferðisbrot til lögreglu.
- 34% færri nauðganir tilkynntar á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við sama tímabil í fyrra.
- Ekki jafn fáar nauðganir tilkynntar til lögreglu á tímabilinu 2010-2023.
Ný skýrsla ríkislögreglustjóra um kynferðisbrot hefur verið birt á vefsvæði lögreglunnar. Í skýrslunni má finna upplýsingar um tilkynningar til lögreglu vegna kynferðisbrota fyrstu níu mánuði ársins 2023. Lögreglan skráði tilkynningar um 126 nauðganir fyrstu níu mánuði ársins 2023 en til samanburðar voru tilkynntar 191 nauðgun á sama tímabili í fyrra. Samsvarar það 34% fækkun tilkynninga. Að meðaltali eru núna skráðar tilkynningar um 14 nauðganir, á mánuði hjá lögreglunni.
Í málaskrá lögreglunnar vegna kynferðisbrota er bæði skráð hvenær brot eru tilkynnt og hvenær þau áttu sér stað. Ástæða þess er að í kynferðisbrotum líður oft tími á milli þess að brotið á sér stað og tilkynnt er um það til lögreglu. Þegar horft er til tíma brots, var tilkynnt um 89 nauðganir sem áttu sér stað fyrstu níu mánuði ársins eða 10 nauðganir á mánuði, sem samsvarar 45% færri brotum frá sama tímabili í fyrra.
Lögreglan skráði í allt 388 tilkynningar um kynferðisbrot á tímabilinu, sem samsvarar tæplega 21% fækkun tilkynninga á milli ára og 1,4 tilkynningum til lögreglu að meðaltali á dag. Öllum tegundum skráðra kynferðisbrota fækkar samanborið við sama tímabil í fyrra og ekki hafa jafnfáar nauðganir verið tilkynntar til lögreglu á tímabilinu 2010 til 2023 sem skýrslan nær yfir.
Meðalaldur sakborninga í kynferðisbrotamálum er 35 ár. Um 94% grunaðra í kynferðisbrotum eru karlar, meirihlutinn á bilinu 18-45 ára. Meðalaldur brotaþola kynferðisofbeldis er 23 ár og eru 86% brotaþola konur í öllum slíkum málum tilkynntum til lögreglu.
Ætíð er hægt að tilkynna mál til lögreglunnar í 112.
Þá má finna upplýsingar þar um þau úrræði sem eru til staðar vegna kynferðisofbeldis á landsvísu og leiðarvísir um réttarvörslukerfið fyrir þolendur á ofbeldisgátt 112.
——
Upplýsingar um skýrsluna eru aðgengilegar á síðu lögreglunnar um tölfræði vegna kynbundins ofbeldis.
Nánari upplýsingar veitir:
Guðbjörg S. Bergsdóttir, sérfræðingur á gagnavísinda- og upplýsingadeild, gudbjorgs@logreglan.is og Eygló Harðardóttir, verkefnastjóri afbrotavarna, eyglohardar@logreglan.is