Frá vettvangi á Reykjanesbraut í Reykjavík, við Bústaðaveg.
9 Nóvember 2023 16:31

Í síðustu viku lést einn vegfarandi og átján slösuðust í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 29. október – 4. nóvember, en alls var tilkynnt um 47 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 29. október kl. 13.14 varð tveggja bíla árekstur á Reykjanesbraut í Hafnarfirði, skammt austan við Straumsvík. Þeim var ekið úr gagnstæðri átt, en í aðdragandanum er talið að annarri bifreiðinni hafi verið ekið á steyptan vegartálma og við það kastast á hina bifreiðina. Í framhaldi af árekstrinum valt fyrrnefnda bifreiðina eina veltu, en ökumaðurinn hennar sagðist mögulega hafa blindast af sólinni þegar slysið varð. Vegaframkvæmdir eru á þessum hluta Reykjanesbrautar og því lækkaður hámarkshraði. Þrír voru fluttir á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 30. október. Kl. 16 var bifreið ekið á reiðhjól á Álfhólsvegi í Kópavogi. Í aðdragandanum  hugðist ökumaðurinn beygja inn á innkeyrslu við götuna þegar bifreiðin hafnaði á reiðhjóli, sem var hjólað á hjólastíg sem liggur meðfram Álfhólsvegi. Hjólreiðamaðurinn ætlaði sjálfur að leita aðstoðar á slysadeild. Kl. 17.10 varð átta ára drengur á reiðhjóli fyrir steypubifreið á Ásvöllum í Hafnarfirði og lést. Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og rannsóknarnefnd samgönguslysa rannsaka tildrög slyssins. Og kl. 17.16 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni við hringtorg á mótum Hjallabrautar og Skjólvangs í Hafnarfirði og hafnaði hún á tré utan vegar. Grunur er um að veikindum sé um að kenna að svona fór. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 31. október kl. 7.36 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut í Hafnarfirði, rétt við Straumsvík, og aftan á aðra á sömu leið, en ökumaður hennar hafa dregið úr hraða vegna umferðar. Við það kastaðist síðarnefnda bifreiðin yfir á öfugan vegarhelming, sem varð til þess að aðvífandi bifreið þurfti að snarhemla. Bifreiðin sem kom þar á eftir ók þá á bifreiðin sem snarhemlaði. Tveir voru fluttir á slysadeild og sá þriðji leitaði sér sjálfur læknisaðstoðar.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 1. nóvember. Kl. 14.18 var vörubifreið ekið austur Miklubraut í Reykjavík, nálægt Orkunni, og á aðra bifreið sem var ekið sömu leið. Í aðdragandanum var vörubifreiðinni ekið á miðjuakrein og hugðist ökumaður hennar skipta yfir á hægri akrein þegar árekstur varð með þeim. Ökumaður síðarnefndu bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild. Kl. 17.39 var bifreið ekið norður Reykjanesbraut í Reykjavík, við Bústaðaveg, og aftan aðra bifreið, sem var kyrrstæð á rauðu ljósi á gatnamótunum. Við það kastaðist hún á þriðju bifreiðina. Grunur er um ökumaður öftustu bifreiðarinnar hafi mögulega sofnað við stýrið í aðdraganda slyssins. Fjórir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.08 var bifreið ekið á reiðhjól á gangbraut á Suðurbraut í Hafnarfirði, við Þúfubrauð. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Fimmtudaginn 2. nóvember kl. 17.59 var bifreið ekið vestur Hverfisgötu í Reykjavík og á rafmagnshlaupahjól, sem var á hjólastíg, en ökumaður bifreiðarinnar hugðist beygja inn á innkeyrslu við götuna þegar árekstur varð með þeim. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 3. nóvember. Kl. 15.21 var bifreið ekið vestur Bíldshöfða í Reykjavík, á móts við N1, og aftan á aðra bifreið sem var á sömu leið. Einn var fluttur á slysadeild. Og kl. 15.57 var reiðhjóli hjólað í hlið bifreiðar á Hjarðarhaga í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 4. nóvember kl. 2.38 var vespu ekið á vegfaranda á gangstétt við Laugaveg í Reykjavík, en ökumaðurinn fór rakleiðis af vettvangi. Vegfarandinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.