15 Október 2009 12:00

Lögreglan á Suðurnesjum rannsakar ætlað mansal og hefur lýst eftir litháískri konu sem gengur undir nafninu Ieva Grisiúte vegna rannsóknarinnar. Talið er að konan hafi verið flutt til landsins sem fórnarlamb mansals og hafi komið hingað til lands á stolnum ferðaskilríkjum.

Fjórir menn hafa verið handteknir vegna rannsóknar málsins og þrír þeirra, allt Litháar, voru í gær úrskurðaðir í gæsluvarðhald í Héraðsdómi Reykjaness allt til föstudags að kröfu Lögreglustjórans á Suðurnesjum.

Lögreglan leitar konunnar sem hvarf frá verustað sínum í Reykjanesbæ að kvöldi sl. mánudags og að einum Litháa sem talinn er tengjast málinu og lýst hefur verið eftir.