Frá vettvangi við Reykjanesbraut.
28 Ágúst 2023 16:09

Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í tólf umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 20. – 26. ágúst, en alls var tilkynnt um 40 umferðaróhöpp í umdæminu.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt sunnudaginn 20. ágúst. Kl. 0.17 féll farþegi úr bifreið á gatnamótum Sæbrautar og Dalbrautar í Reykjavík. Farþeginn, sem var ölvaður, var fluttur á slysadeild. Kl. 22.21 var bifreið ekið austur Hringbraut í Reykjavík og aftan á aðra við gatnamót Njarðargötu. Í aðdragandanum hafði ökumaður fremri bifreiðarinnar snögghemlað vegna gæsar sem gekk út á akbrautina. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 23.05 var bifhjóli ekið á Krýsuvíkurvegi í Hafnarfirði, norðan Kleifarvatns, þar sem ökumaðurinn missti stjórn á því og féll á veginn. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunarakstur, var fluttur á slysadeild.

Mánudaginn 21. ágúst kl. 16.19 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli þegar hann var á leið austur Rimaflöt í Reykjavík. Hann var með hund í taumi, en sá hljóp fram fyrir hjólið sem hafnaði á hundinum með fyrrgreindum afleiðingum. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Hundinn sakaði ekki.

Þriðjudaginn 22. ágúst kl. 12.53 varð árekstur rafmagnshlaupahjóls og bifreiðar á mótum Mosavegar og Starengis í Reykjavík. Hjólreiðamaðurinn var á leið austur Mosaveg, en bifreiðin kom úr gagnstæðri átt og hugðist ökumaður hennar beygja til suðurs og aka inn Starengi. Hjólreiðamaðurinn,sem var ekki með öryggishjálm var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 23. ágúst. Kl. 7.54 varð árekstur rafmagnshlaupahjóls og bifreiðar á gatnamótum Sævarhöfða og Tangarbryggju í Reykjavík. Í aðdragandanum var hjólreiðamaðurinn á austurleið á göngustíg við Sævarhöfða, en bifreiðinni var ekið frá Tangarbryggju inn á gatnamótin með fyrrgreindum afleiðingum. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.11 nauðhemlaði ökumaður langferðabifreiðar í hringtorgi við N1 í Borgartúni í Reykjavík þegar hjólreiðamaður þveraði merkta gangbraut sem þar er. Við það kastaðist farþegi í bílnum úr sæti sínu og á gólf bifreiðarinnar. Hann leitaði sér sjálfur læknisaðstoðar.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 24. ágúst. Kl. 8.30 varð árekstur tveggja rafmagnshlaupahjóla á göngustíg við undirgöng á milli Gagnvegar og Hallsvegar í Reykjavík, en hjólreiðamennirnir komu úr gangstæðri átt. Báðir voru fluttir á slysadeild. Á vettvangi eru steyptir veggir í beygju beggja vegna gangnanna sem byrgja eitthvað sýn. Kl. 15.26 var bifreið ekið frárein frá Kringlumýrarbraut í austur, inn á Bústaðaveg í Reykjavík, og á vespu, sem þveraði gangbraut á sem þarna er. Ökumaður vespunnar var fluttur á slysadeild. Kl. 16.11 var bifreið ekið suður Lambhagaveg í Reykjavík og hugðist ökumaður hennar síðan beygja til vinstri og aka austur Mímisbrunn. Á sama tíma var annarri bifreið ekið norður Lambhagaveg svo árekstur varð með þeim. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 16.14 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut í Reykjavík, á móts við N1 í Fossvogi, og aftan á aðra bifreið, sem var ekið sömu leið. Í aðdragandanum þurfti ökumaður fremri bifreiðarinnar að hægja ferðina vegna þriðju bifreiðarinnar, en þarna norðan við er framkvæmdasvæði sem þrengir að umferð. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 26. ágúst kl. 12.31 var bifreið ekið suður Reykjanesbraut í Reykjavík, við Breiðholtsbraut, þar sem ökumaðurinn missti stjórn á henni svo bifreiðin hafnaði á ljósastaur. Ökumaðurinn, sem er grunaður um fíkniefnaakstur, var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.