15 September 2009 12:00
Tuttugu og átta umferðaróhöpp voru tilkynnt til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu um helgina en grunur leikur á að eitt þeirra megi rekja til fíkniefnaaksturs. Flest óhöppin voru minniháttar en í nokkrum tilvikum þurfti þó að flytja fólk á slysadeild. Í fjórum tilfellum var um afstungu að ræða. Eignatjónið er talsvert.
Óhöppin voru af ýmsum toga en sem fyrr var talsvert um aftanákeyrslur en ökumönnum hættir til að gleyma þeirri góðu reglu að hafa hæfilegt bil á milli ökutækja. Einnig var ekið á umferðarmerki, grindverk og ljósastaura í allnokkrum tilfellum. Einn þeirra sem ók á ljósastaur var að gera kúnstir á bílaplani í Kópavogi. Aðspurður um óhappið sagði viðkomandi að spólvörnin hefði ekki virkað og því fór sem fór.