16 Ágúst 2023 13:35

Í síðustu viku slösuðust sextán vegfarendur í fimmtán umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 6. – 12. ágúst, en alls var tilkynnt um 38 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 6. ágúst kl. 20.26 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á Grandatorgi við Ánanaust í Reykjavík þegar hann hjólaði utan í kantstein við gangbraut. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 7. ágúst. Kl. 1.35 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum á/við Bústaðavegsbrú í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið austur Bústaðaveg, en hinni upp frá Kringlumýrarbraut. Annar ökumannanna er grunaður um ölvunarakstur. Einn var fluttur á slysadeild. Og kl. 19.32 varð tveggja bíla árekstur á Þingvallavegi, við bifreiðastæði við malarveg að Helgafelli í minni Mosfellsdals. Bifreiðunum var ekið á Þingvallavegi úr gangstæðri átt þegar annarri þeirra var beygt til vinstri og í veg fyrir hina, áleiðis að bifreiðastæðinu, svo árekstur varð með þeim. Einn var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 8. ágúst. Kl. 7.19 var bifreið ekið út frá bifreiðastæði í Skipholti í Reykjavík og á reiðhjól á gangstétt, sem var hjólað til vesturs. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 14.20 var bifreið ekið vestur Bústaðavegi í Reykjavík og aftan á vinnuvél við gatnamót Háaleitisbrautar. Einn var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 9. ágúst kl. 22.36 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Sæbrautar og Kirkjusands í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið norður Sæbraut, en hinni vestur Kirkjusand og tók ökumaður hennar hægri beygju áleiðis norður Sæbraut svo árekstur varð með þeim. Einn var fluttur á slysadeild.

Fjögur umferðarslys voru tilkynnt fimmtudaginn 10. ágúst. Kl. 8.23 var bifreið ekið norður Vatnsendaveg í Kópavogi, inn í hringtorg og síðan út úr því austur Vatnsendahvarf og á tvo gangandi vegfarendur, sem voru á leið yfir merkta gangbraut. Báðir vegfarendurnir voru fluttir á slysadeild. Kl. 13.28 varð tveggja bíla árekstur í hringtorgi (Hvammstorg) á gatnamótum Fífuhvammsvegar og Lindarvegar í Kópavogi, þegar annarri þeirra var ekið út úr hringtorginu. Einn var fluttur á slysadeild. Kl. 14.15 varð árekstur bifreiðar og vespu á gatnamótum Álfahlíðar Björtuhlíðar í Mosfelllsbæ. Í aðdragandanum var bifreiðinni ekið frá Álfahlíð og inn í Björtuhlíð og á vespuna, sem var ekið meðfram Álfahlíð. Ökumaður vespunnar var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.11 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli hjá Orkunni á Dalvegi í Kópavogi. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 11. ágúst. Kl. 18.07 hafnaði torfærutæki (Buggy bíll) utan vegar og valt við kvartmílubrautina við Álfahellu í Hafnarfirði, en þar fór fram akstursíþróttakeppni. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild. Kl. 18.34 var bifreið ekið suður Skógarsel í Reykjavík og beygt áleiðis austur Öldusel, en þar hafnaði bifreiðin á reiðhjóli, sem var hjólað um Öldusel. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.40 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á gangbraut á mótum Sæbrautar og Katrínartúns í Reykjavík þegar hann tók fast í bremsurnar. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.

Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 12. ágúst. Kl. 13.41 féll hjólreiðamaður af reiðhjóli á gangstíg suður af Kópavogstúni, við undirgöng við Hafnarfjarðarveg í Kópavogi. Hann var fluttur á slysadeild. Og kl. 18.17 var bifreið ekið í Geldinganesi að Strandvegi í Reykjavík og á reiðhjól, sem var hjólað austur á göngu- og hjólastíg, sem liggur meðfram Strandvegi. Hátt gras byrgir vegfarendum sýn á þessum stað. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.