8 Ágúst 2023 16:04

Það var í mörg horn að líta hjá lögreglunni um verslunarmannahelgina, en átján ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu. Tilkynnt var um tólf líkamsárásir, þar af tvær alvarlegar, og þá var farið í sjö útköll vegna heimilisofbeldis. Nokkuð var líka um þjófnaðarmál, auk þess sem tilkynnt var um tíu innbrot, en brotist var inn í fyrirtæki, geymslur, íbúðir og bílskúr. Rannsókn málanna stendur yfir og voru nokkrir handteknir um helgina í aðskyldum málum. Tvö rán voru framin í umdæminu, en einn situr í gæsluvarðhaldi í tengslum við þau. Þá voru sextán umferðarslys og/eða óhöpp tilkynnt til lögreglu á sama tímabili, auk þess sem tveimur bílum var stolið á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Fimmtán voru staðnir að hraðakstri og eiga einhverjir þeirra yfir höfði sér sviptingu ökuréttinda og háa sekt. Loks má nefna að lögreglan hafði afskipti af og kom til aðstoðar mörgum sem voru í annarlegu ástandi. Mörgum var komið til síns heima, en suma þurfti að vista í fangageymslu á meðan víman rann af þeim. Að venju bárust líka margar kvartanir vegna hávaða og væri óskandi að fólk tæki meira tillit til nágranna, sérstaklega á þeim tíma sólarhringsins þegar öllum ætti að vera ljóst að friður og ró þarf að ríkja.