25 Ágúst 2009 12:00
Fíkniefni fundust við húsleit í íbúð í Grafarholti eftir hádegi í gær. Um var að ræða um 1,5 kg af hassi, ríflega 600 grömm af marijúana og kókaín í neysluskömmtum. Tveir menn á þrítugsaldri voru handteknir og yfirheyrðir í tengslum við rannsókn málsins. Þeir hafa áður komið við sögu hjá lögreglu. Húsleitin var framkvæmd að undangengnum dómsúrskurði.
Fyrrnefnd aðgerð er liður í að hamla gegn sölu og dreifingu fíkniefna en sem fyrr minnir lögreglan á fíkniefnasímann 800-5005. Í hann má hringja nafnlaust til að koma á framfæri upplýsingum um fíkniefnamál. Fíkniefnasíminn er samvinnuverkefni lögreglu og tollyfirvalda og er liður í baráttunni við fíkniefnavandann.