23 Júní 2009 12:00
Karl á þrítugsaldri var handtekinn í miðborginni í gærkvöld en hann var staðinn að sölu fíkniefna. Viðkomandi, sem hefur áður komið við sögu hjá lögreglu, var ekki á þeim buxunum að láta handtaka sig. Hann ók bíl sínum af vettvangi og var veitt eftirför. Maðurinn ók þó ekki langt og taldi það greinilega betri kost að forða sér á hlaupum. Hann stöðvaði því bílinn og hélt flóttanum áfram á tveimur jafnfljótum. Fíkniefnasalinn komst hinsvegar ekki langt og var handtekinn af vöskum laganna vörðum.
Tveir piltar um tvítugt voru einnig handteknir í tengslum við rannsókn málsins en þeir eru báðir grunaðir um fíkniefnamisferli. Lagt var hald á allnokkuð af marijúana.