6 Júní 2023 10:11
Í síðustu viku slösuðust tíu vegfarendur í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 28. maí – 3. júní, en alls var tilkynnt um 42 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 28. maí kl. 13 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Stekkjarbakka/Stekkjarbakka í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið inn á gatnamótin úr norðri en hinni úr vestri. Að sögn vitna var annarri þeirra ekið gegn rauðu ljósi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Mánudaginn 29. maí kl. 2.48 var bifreið ekið norður Kringlumýrarbraut í Reykjavík, yfir gatnamótin við Suðurlandsbraut, og á reiðhjól. Hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 30. maí. Kl. 1.16 féll hjólreiðamaður af rafmagnshlaupahjóli á gatnamótum Smyrlahrauns og Álfaskeiðis í Hafnarfirði. Hjólreiðamaðurinn, sem er grunaður um ölvun, var fluttur á slysadeild. Og kl. 10.18 féll ökumaður af bifhjóli á Korpúlfsstaðavegi í Reykjavík, við Brúnastaði. Hann var fluttur á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 31. maí. Kl. 13.26 var bifreið ekið vestur Hverfisgötu í Reykjavík og að bifreiðastæði við götuna, milli Barónsstígs og Vitastígs, og á rafmagnshlaupahjól. Hjólreiðamaðurinn, sem var á hjólastíg þegar þetta gerðist, var fluttur á slysadeild. Kl. 19.07 féll ökumaður af bifhjóli á Arnarnesvegi við Fífuhvammsveg í Kópavogi. Í aðdragandanum flæktist úlpa í afturdekki hjólsins með fyrrgreindum afleiðingum. Ökumaðurinn, sem hefur aldrei öðlast ökuréttindi, var fluttur á slysadeild. Og kl. 20.12 slasaðist ökumaður rally bifreiðar þegar reynt var að rétta yfirbyggingu hennar á baklóð við Breiðhellu í Hafnarfirði. Í aðdragandanum var bundin keðja í bifreiðina og fest við steypustólpa, en ökumaðurinn rak höfuðið í veltibúr hennar þegar ekið var af stað. Hann var fluttur á slysadeild.
Fimmtudaginn 1. júní kl. 17.18 var bifreið ekið austur Furugrund í Kópavogi og á hlaupahjól á gangbraut. Aðstandendur fluttu hjólreiðamanninn á slysadeild.
Föstudaginn 2. júní kl. 20.54 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni á Heiðmerkurvegi í Garðabæ með þeim afleiðingum að hún valt. Talið er að ökumaðurinn hafi ekið á stóran stein í aðdragandanum. Hann og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.