16 Maí 2023 11:19
Leiðtogafundur Evrópuráðsins er haldinn í Hörpu í Reykjavík í dag og á morgun. Ætla má að fundurinn hafi nokkur áhrif á daglegt líf íbúa á höfuðborgarsvæðinu báða dagana. Af öryggisástæðum verða götur í kringum Hörpu lokaðar fyrir umferð ökutækja meðan á fundinum stendur, en hægt verður að fara um svæðið gangandi og á hjóli. Þetta á hins vegar ekki við um svæðið næst Hörpu, sem er lokað almenningi meðan á þessu stendur.
Þá má gera ráð fyrir umferðartöfum um allt höfuðborgarsvæðið vegna aksturs sendinefnda í lögreglufylgd til og frá Keflavíkurflugvelli og Reykjavíkurflugvelli. Áhrifin verða hvað mest síðdegis, bæði í dag og á morgun. Vegfarendum á höfuðborgarsvæðinu er því vinsamlegast bent á að áætla lengri ferðatíma en venjulega til að aka á milli staða dagana sem leiðtogafundurinn fer fram. Þetta á líka við um vegfarendur sem hyggjast aka um Reykjanesbraut, það er á milli Suðurnesja og höfuðborgarsvæðisins þessa sömu daga – ekki síst flugfarþega.
Engar almenningssamgöngur verða innan lokunarsvæðisins. Strætó ekur eftir breyttum akstursleiðum á meðan á lokuninni stendur til kl. 19.00 miðvikudaginn 17. maí.