3 Maí 2023 13:01
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu varar við fjársvikum sem felast í því að fyrirtæki óska eftir að stofna til reikningsviðskipta með úttektarheimild, símleiðis eða með tölvupósti. Vörur eru svo pantaðar og sóttar en reikningar ekki greiddir.
Við þessi fjársvik hafa óprúttnir aðilar notfært sér annað hvort fyrirtæki með gott lánshæfismat sem þeir hafa nýverið tekið yfir eða fyrirtæki sem þeir hafa sagst eiga eða starfa fyrir, sem þeir koma ekki að með neinum hætti í raun.
Rekstraraðilar þurfa því að vera vakandi fyrir því og kanna hvort það fyrirtæki sem vill komast í reikningsviðskipti hefur nýverið skipt um eigendur, framkvæmdastjóra, prókúruhafa eða stjórnarmenn.
Ef til stendur að heimila reikningsviðskipti er það góð regla að hafa alltaf samband símleiðis við fyrirtæki í gegnum opinberlega skráð símanúmer fyrirtækisins en ekki það símanúmer sem gefið er upp í t.a.m. tölvupósti. Þá eru grunsamlegar þær beiðnir sem berast úr netfangi með Gmail-endingu en ekki með endingu sem vísar til nafns fyrirtækisins. Það er einnig góð regla að afhenda ekki vörur til sendla á vegum fyrirtækja sem nýlega hafa stofnað til reikningsviðskipta og samskipti hafa einungis farið fram við í gegnum tölvupósta.