4 Mars 2009 12:00
Um alllangt skeið hefur lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fylgst með og mælt hraðakstur í Hvalfjarðargöngum. Þar hefur átt sér stað sú ánægjulega þróun að dregið hefur úr hraðakstri og hlutfall brotlegra ökumanna er nú yfirleitt um 1%. Reglulega eru birtar niðurstöður hraðamælinga frá þessum stað en á meðfylgjandi skýringarmyndum má sjá að nokkur dagamunur er á ökumönnum. Umræddar niðurstöður voru teknar saman eftir fjögurra vikna tímabil í janúar og febrúar en vöktuð voru tæplega 60 þúsund ökutæki. Nokkra athygli vekur að ökumenn virðast flýta sér mikið á sunnudögum en þá er meðalhraði brotlegra ökumanna hærri en aðra daga. Hvað veldur þessu skal ósagt látið en kannski er þetta verðugt rannsóknarverkefni.
Meðalhraði brotlegra ökumanna eftir vikudögum.
Fjöldi brota eftir vikudögum.