Frá vettvangi við Æsustaðaveg.
12 Apríl 2023 14:59

Í síðustu viku slösuðust níu vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 2. – 8. apríl, en alls var tilkynnt um 37 umferðaróhöpp í umdæminu.

Sunnudaginn 2. apríl kl. 15.27 varð tveggja bíla árekstur á Vesturlandsvegi í Reykjavík, en báðum bílunum var ekið í norðurátt. Í aðdragandanum ákvað ökumaður fremri bifreiðarinnar að taka U-beygju á veginum án nægrar aðgæslu með þeim afleiðingum að ökumaður aftari bifreiðarinnar náði ekki að forða árekstri. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.

Mánudaginn 3. apríl kl. 15.53 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Vífilsstaðavegar og Ásabrautar í Garðabæ. Annarri bifreiðinni var suður Ásabraut og hinni um Vífilsstaðaveg, en biðskylda er gagnvart umferð um Vífilsstaðaveg. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.

Þriðjudaginn 4. apríl kl. 23.15 var bifreið ekið ofan í húsagrunn við Sigtún við Gullteig í Reykjavík. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur, var fluttur á slysadeild.

Miðvikudaginn 5. apríl kl. 14.56 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Suðurgötu og Fálkagötu í Reykjavík. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið suður Suðurgötu en hinni austur Fálkagötu svo árekstur varð með þeim. Við gatnamótin hafði verði lagt stórri vörubifreið og byrgði hún ökumönnunum sýn. Báðir ökumennirnir og farþegi voru fluttir á slysadeild.

Fimmtudaginn 6. apríl kl. 19.54 missti ökumaður stjórn á bifreið sinni við Æsustaðaveg í Reykjadal í Mosfellsbæ og hafnaði hún á brúarvegriði. Ökumaðurinn, sem er grunaður um ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur, var fluttur á slysadeild.

Laugardaginn 8. apríl kl. 22.35 var bifreið ekið á gangandi vegfaranda á Hverfisgötu við Klapparstíg í Reykjavík. Vegfarandinn ætlaði sjálfur að leita sér aðstoðar á slysadeild.

Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.