4 Apríl 2023 11:24

Tuttugu og tveir ökumenn voru teknir fyrir ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur á höfuðborgarsvæðinu um helgina. Einn þeirra hafði þegar verið sviptur ökuleyfi, en auk þess stöðvaði lögreglan för þriggja annarra ökumanna sem höfðu sömuleiðis verið sviptir ökuleyfi og jafnmargra sem höfðu aldrei öðlast ökuréttindi. Höfð voru afskipti af um sextíu ökutækjum sem var lagt ólöglega á miðborgarsvæðinu, auk þess sem skráningarnúmer voru fjarlægð af nálægt tuttugu bifreiðum í umdæminu, en þær voru ýmist ótryggðar og/eða óskoðaðar. Þá voru þrettán umferðarslys tilkynnt til lögreglu á sama tímabili.

Um helgina voru enn fremur níu líkamsárásir tilkynntar til lögreglu, þar af fjórar alvarlegar, og farið var í fjögur útköll vegna heimilisofbeldis. Nokkuð var líka um innbrot, m.a. í tvær verslanir og þrjár bifreiðar. Og að venju bárust sömuleiðis nokkrar tilkynningar um búðaþjófnaði í umdæminu.