7 Mars 2023 14:31
Í síðustu viku slösuðust sex vegfarendur í fimm umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 26. febrúar – 4. mars, en alls var tilkynnt um 29 umferðaróhöpp í umdæminu.
Þriðjudaginn 28. febrúar kl. 9 var bifreið ekið norður Skógarhlíð í Reykjavík og á reiðhjól við inn og útakstur hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins. Bifreiðin og reiðhjólið voru á sömu akstursleið, en ökumaðurinn tók vinstri beygju þegar slysið varð. Hann hugðist aka inn á lóð SHS, en á sama tíma ætlaði hjólreiðamaðurinn, sem fór yfir á öfugan vegarhelming, að taka framúr bifreiðinni með fyrrgreindum afleiðingum. Hjólreiðamaðurinn, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 1. mars. Kl. 14.44 var bifreið ekið vestur Fitjalind í Kópavogi og á rafmagnshlaupahjól, sem var hjólað norður Fjallalind. Biðskylda er á Fjallalind gagnvart umferð um Fitjalind. Hjólreiðamaðurinn, sem var ekki með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild. Og kl. 16.09 missti ökumaður bifreiðar stjórn á henni í Skipalóni í Hafnarfirði, en bifreiðin hafnaði á húsi við götuna. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Föstudaginn 3. mars kl. 19.32 var bifreið ekið vestur Bústaðaveg í Reykjavík, að gatnamótum við Ósland, og aftan á aðra bifreið sem var kyrrstæð á rauðu ljósi. Ökumaður fremri bifreiðarinnar var fluttur á slysadeild.
Laugardaginn 4. mars kl. 23.16 var bifreið ekið suður Fjarðarhraun í Hafnarfirði og hugðist ökumaður hennar taka vinstri beygju og aka Reykjanesbraut áfram til austurs, þegar annarri bifreið var ekið norður Reykjanesbraut og inn á gatnamót áleiðis að Fjarðarhrauni þegar árekstur varð með þeim. Ágreiningur er um stöðu umferðarljósanna þegar slysið varð. Annar ökumannanna er grunaður um ölvunar- og/eða fíkniefnaakstur. Tveir voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.