10 Febrúar 2023 16:23
Í síðustu viku slösuðust sextán vegfarendur í tíu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 29. janúar – 4. febrúar, en alls var tilkynnt um 37 umferðaróhöpp í umdæminu.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt mánudaginn 30. janúar. Kl. 20.35 var bifreið ekið á vegrið á Laugavegi í Reykjavík, við Ásholt. Hálka og þæfingsferð var á vettvangi. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 21 missti ökumaður bifreiðar stjórn á henni á Reykjanesbraut í Reykjavík, við Sprengisand, og hafnaði á ljósastaur. Hálka og þæfingsfærð var á vettvangi. Ökumaðurinn var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt þriðjudaginn 31. janúar. Kl. 8.21 varð þriggja bíla árekstur á Reykjanesbraut í Garðabæ, við Kauptún. Talið er að ein bifreiðanna hafi bilað og stöðvast og ökumenn sem á eftir komu ekki náð að bregðast við í tæka tíð. Tveir ökumannanna voru fluttir á slysadeild. Og kl. 8.40 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Stórhöfða og Viðarhöfða í Reykjavík. Talið er að annarri bifreiðinni hafi verið beygt í veg fyrir hina, en umferð um gatnamótin er stýrt með umferðarljósum. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Miðvikudaginn 1. febrúar kl. 10.55 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Reykjanesbrautar og Álftanesvegar í Garðabæ. Grunur er um að annarri bifreiðinni hafi verið ekið gegn rauðu ljósi. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild.
Þrjú umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 3. febrúar. Kl. 8.13 varð tveggja bíla árekstur á Fífuhvammsvegi í Kópavog, á aðrein að Hafnarfjarðarvegi. Í aðdragandanum var annarri bifreiðinni ekið vestur Fífuhvammsveg, en hinni austur Fífuhvammsveg og beygði ökumaður hennar inn á aðreinina. Biðskylda er fyrir umferð á leið síðarnefnda ökumannsins. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Kl. 20.51 var bifreið ekið á aðra bifreið í hringtorgi (Breiðhellutorg) á gatnamótum Breiðhellu og Krýsuvíkurvegar í Hafnarfirði. Myrkur og mikil rigning var á vettvangi. Báðir ökumennirnir voru fluttir á slysadeild. Og kl. 23.18 varð aftanákeyrsla á gatnamótum Bústaðavegar og Flugvallavegar í Reykjavík, en fremri bifreið var kyrrstæð á rauðu ljósi þegar áreksturinn varð. Nokkur ísing var á vettvangi. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt laugardaginn 4. febrúar. Kl. 14.48 varð tveggja bíla árekstur á gatnamótum Breiðholtsbrautar og Jaðarsels í Reykjavík. Grunur er um að annarri bifreiðinni hafi verið ekið gegn rauðu ljósi. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild. Og kl. 15.37 missti ökumaður bifreiðar á Vesturlandsvegi í Mosfellsbæ, rétt við Langatanga, stjórn á henni, en bifreiðin hafnaði utan vegar og valt. Snjóþekja, talsverð hálka og dimm él voru á vettvangi, en bifreiðin virðist hafa runnið í hálku og beint á ljósastaur og síðan oltið. Ökumaður og farþegi voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.