8 Febrúar 2023 13:12
Þverfaglegt samstarf stofnana með börnum, foreldrum og forsjáraðilum er lykilatriði til að draga úr líkum á auknu og alvarlegra ofbeldi meðal barna og stuðla að farsæld fyrir börn í viðkvæmri stöðu. Reykjavíkurborg, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu, Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins og Fjölbrautaskólinn í Breiðholti hafa því mótað sameiginlegt verklag til að draga úr líkum á auknu og alvarlegu ofbeldi meðal barna og stuðla að farsæld fyrir börn í viðkvæmri stöðu. Verður unnið sameiginlega að innleiðingu þess á starfssvæði Suðurmiðstöðvar Reykjavíkurborgar.
Samstarfsyfirlýsing þess efnis var undirrituð í dag.
Byggir þessi vinna á áratuga farsælu samstarfi í borgarhlutanum milli þessara aðila og er meðal ástæðna þess að byrjað verður að innleiða verklag þar til þess að formgera betur heildstæða nálgun með og fyrir börn. Mun reynslan af þessari innleiðingu verða nýtt til að þróa svo samstarf í öðrum borgarhlutum í kjölfarið.
Sameiginlegt verklag mun fela í sér m.a.
- bætta eftirfylgni skóla, félagsþjónustu, barnaverndar og lögreglu vegna barna í kjölfar tilkynninga um heimilisofbeldi til lögreglu,
- fastan tengilið barnaverndar við Suðurmiðstöð,
- reglulega tilkynningafundi lögreglu og barnaverndar,
- auk þess sem unnið er að innleiðingu farsældarlaganna með ráðningu málastjóra og tilnefningu tengiliða hjá lykilstofnunum.
Verkefnið var styrkt af félags- og barnamálaráðherra og dómsmálaráðherra.
Til undirbúnings verklaginu var haldin fjölmenn vinnustofa í Seljakirkju í Breiðholti með fagfólki í mars á síðasta ári um hvernig ætti að þróa áfram gott þverfaglegt samstarf þeirra sem vinna með börnum. Verklagið er hluti af heildstæðri vinnu við mótun verklagsreglna ríkislögreglustjóra fyrir lögregluna á landsvísu vegna barna. Þar má nefna reglur um hlutverk lögreglu vegna laga um samþættingu þjónustu til farsældar barna, rannsókn ofbeldisbrota meðal barna og verklag um tilkynningar á milli lögreglu, barnaverndar og skóla þegar kemur að ofbeldi gegn börnum.
———-
Börn í viðkvæmri stöðu eru börn 0-17 ára sem eru þolendur og gerendur í ofbeldismálum og falla undir tilkynningarskyldu almennings skv. 1. mgr. 16. gr. barnaverndarlaga, nr. 80/2002, með síðari breytingum, um að a) búa við óviðunandi uppeldisaðstæður, b) verða fyrir ofbeldi eða annarri vanvirðandi háttsemi eða c) stofna heilsu sinni og þroska í alvarlega hættu.