31 Janúar 2023 17:12
Í síðustu viku slösuðust þrettán vegfarendur í sex umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu. Tímasetningar, aðdragandi og orsakir slysanna sem urðu vikuna 22. – 28. janúar, en alls var tilkynnt um 27 umferðaróhöpp í umdæminu.
Sunnudaginn 22. janúar kl. 4.47 var bifreið ekið suður Selásbraut í Reykjavík, en á móts við Næfurás missti ökumaðurinn stjórn á bifreiðinni, sem snérist í hringi kanta á milli, yfir umferðareyju uns hún stöðvaðist þversum á veginum. Hálka var á vettvangi. Ökumaðurinn, sem er grunaður um fíkniefnaakstur, og tveir farþegar voru fluttir á slysadeild.
Mánudaginn 23. janúar kl. 19.25 var bifreið ekið norður Norðurvör í Kópavogi, en ökumaður hennar hugðist beygja vestur Vesturvör þegar annarri bifreið var ekið vestur Vesturvör svo árekstur varð með þeim. Biðskylda er á Norðurvör gagnvart umferð um Vesturvör. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt miðvikudaginn 25. janúar. Kl. 13.22 var bifreið ekið norður frárein frá Kringlumýrarbraut í Reykjavík, og áleiðis í vinstri beygju vestur Bústaðaveg, þegar annarri bifreið var ekið austur Bústaðaveg svo árekstur varð með þeim. Umferðarljós eru á gatnamótunum, en samkvæmt vitnum var grænt ljós fyrir umferð frá fráreininni vestur Bústaðaveg. Annar ökumannanna var fluttur á slysadeild. Og kl. 21.41 var bifreið beygt af Fjarðargötu í Hafnarfirði, gegnt Pylsubarnum, og áleiðis inn á Linnetsstíg þegar bifhjóli var ekið úr gangstæðri átt á Fjarðarhrauni svo árekstur varð með þeim. Ökumaður bifhjólsins, sem var með öryggishjálm, var fluttur á slysadeild.
Tvö umferðarslys voru tilkynnt föstudaginn 27. janúar. Kl. 20.27 var bifreið ekið Eiríksgötu í Reykjavík og beygt til hægri inn á Barónsstíg þar sem hún hafnaði á gangandi vegfaranda, sem var á leið yfir götuna. Gangandi vegfarandinn var fluttur á slysadeild. Ökumaðurinn er grunaður um fíkniefnaakstur. Og kl. 23.14 var bifreið ekið vestur Norðurströnd á Seltjarnarnesi, nærri gatnamótum við Barðaströnd, og framan á aðra bifreið, sem kom úr gagnstæðri átt. Talið er að annarri bifreiðinni hafa verið ekið hratt og ógætilega við framúrakstur og á öfugum vegarhelmingi þegar áreksturinn varð. Bleyta var á vettvangi. Báðir ökumennirnir og fjórir farþegar voru fluttir á slysadeild.
Enn sem fyrr er ástæða til að vekja athygli á mikilvægi þess að allir vegfarendur fari ávallt varlega í umferðinni og virði gildandi umferðarlög.