3 Janúar 2009 12:00
Sextán ára piltur var handtekinn í Breiðholti skömmu fyrir miðnætti í gærkvöld. Hans hafði verið leitað frá því um kvöldmatarleytið en þá barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu tilkynning um að ungur maður vopnaður skotvopni væri á ferðinni í Breiðagerði í Reykjavík. Fjölmennt lið lögreglunnar leitaði að piltinum og naut við það aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra. Hann fannst svo hjá ættingjum sínum í Breiðholti en þeir gerðu lögreglu viðvart og gaf pilturinn sig fram mótþróalaust en hann var síðan færður á viðeigandi stofnun. Pilturinn, sem hefur áður komið við sögu hjá lögreglu, var með hlaðna skammbyssu í fórum sínum en hana hafði hann tekið ófrjálsri hendi. Faðir piltsins er skráður fyrir byssunni og hefur fyrir henni tilskilin leyfi. Unnið er að rannsókn málsins en ekki er hægt að veita frekari upplýsingar að svo stöddu.