20 Janúar 2023 11:44
Í morgun var fundað með almannavarnardeild Ríkislögreglustjóra, veðurstofu og vegagerð og í framhaldi af því var haldinn upplýsingafundur með fulltrúum í aðgerðastjórn á Suðurlandi. Minna varð úr úrkomu í Skaftafellssýslum en spár gerðu ráð fyrir í nótt þannig að ekki kom til lokana þar. Leiðindaveður var á Hellisheiði í morgun en þar er hitastig að hækka og færð að lagast. Víða er fljúgandi hálka á vegum og fullt tilefni til að fara varlega, hvort sem er fyrir akandi eða gangandi vegfarendur. Margir hafa lagt í mikla vinnu við að opna niðurföll og það mun örugglega koma í veg fyrir vatnstjón á mörgum stöðum. Ef einhverjir eiga þetta eftir þá er bara að skella sér í stígvél og pollagalla og leysa það hið snarasta.
Úrkomu- og hitaspá virðist ætla að ganga eftir en ef eitthvað er þá mögulega minna afrennsli en útlit var fyrir. Ekki hafa borist fréttir af flóðum eða nýmyndun stífla í árfarvegum en verði menn varir við slíkt væri gott að fá upplýsingar um það inn til lögreglu eða veðurstofu.
Áfram verður fylgst með og aðgerðastjórn virkjuð verði efni til þess.